Orkumálinn 2024

Ernir flýgur til og frá Egilsstöðum á fimmtudag

Flugfélagið Ernir býður upp á flugsæti á almennum markaði til og frá Egilsstöðum á fimmtudag. Flugið er tilfallandi og markar ekki upphafið að samkeppni á flugleiðinni.

„Við erum með verkefni þennan dag og ákváðum að nýta tækifærið og selja tóma leggi, frekar en fljúga vélinni annað tómri eða láta hana bíða,“ segir Ásgeir Örn Þorsteinsson, sölu- og markaðsstjóri Ernis.

Eftir að tilkynnt var um flugið í dag hafa Austfirðingar fagnað því, mögulega í von um að það sé forsmekkur að samkeppni við Icelandair á flugleiðinni. Icelandair, sem heldur úti föstu áætlunarflugi milli Reykjavíkur og Egilsstaða hefur sætt mikilli gagnrýni síðustu vikur fyrir takmarkað sætaframboð, hátt verð og raskanir á flugáætlun. Þess vegna er því fagnað að Ernir bjóði sitt flug á 10.900 krónur.

Ásgeir segir flugið á fimmtudag ekki upphafið að samkeppni á leiðinni af hálfu Ernis. „Þetta er algjörlega tilfallandi og við vildum bjóða Austfirðingum og öðrum að ferðast með okkur, ef þeir vildu.

Þó er engin launung um að við höfum fengið fyrirspurnir úr ýmsum áttum hvort við ætlum að bjóða upp á flug á aðra áfangastaði en við höfum í dag. Við erum ekki að boða komu okkar með þessu flugi en umræðan er jákvæð,“ segir Ásgeir.

Flogið verður með 32ja sæta Dornier 328 flugvél Ernis. Í boði eru annars vegar flugsæti úr Reykjavík klukkan 8:45 um morguninn og frá Egilsstöðum klukkan 19:00. Flugið er ekki bókanlegt í gegnum vef Ernis, heldur aðeins síma eða tölvupóst og loftbrú veitir ekki afslátt.

Mynd: Flugfélagið Ernir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.