"Erlendu starfsmennirnir hafa ítrekað lent í dónalegum viðskiptavinum"

„Ég fann mig knúna til þess að skrifa þessi skipaboð vegna þess að erlendu starfsmennirnir okkar hafa ítrekað verið að lenda í dónalegum viðskiptavinum,“ segir Dýrunn Pála Skaftadóttir, verslunarstjóri í Olís á Reyðarfirði, um miða sem hangir við afgreiðslukassa í versluninni.


Eftirfarandi skilaboð liggja frammi til viðskiptavina í Olís á Reyðarfirði;
„Kæru kúnnar. Af gefnu tilefni langar mig að benda á að af 19 starfsmönnum Olís á Reyðarfirði eru 14 íslendingar og fimm pólverjar. Sýnum þeim kurteisi og velvild, við vitum að þau leggja sig 100% fram og veita brosandi góða þjónustu. Með kærri þökk, Dýrunn Pála, verslunarstjóri.“

„Erlendu starfsmennirnir okkar hafa verið að lenda í dónalegum viðskiptavinum sem eru með allskonar blammeringar við þau, á borð við að þau eigi ekki að vera hér á landi nema kunna íslensku og að þau eigi ekki að nota neitt annað en íslensku. Auðvitað eru þetta undantekningar, en þó fullalgengar. Yfirleitt er þetta fólk á miðjum aldri og uppúr, en yngra fólkið spáir ekki í þessu, heimurinn er svo opinn fyrir þeim,“ segir Dýrunn Pála, sem segir að viðmótið hafi komið sér á óvart.

Fimm starfsmannana sem um ræðir eru frá Póllandi og einn frá Írak, en pólsku starfsmennirnir fóru strax að vinna hjá Olís við komuna til landsins.

„Þau fóru öll strax á íslenskunámskeið, eru með app í símunum sínum sem hjálpar þeim að læra, skrifa niður allt það sem verið er að kenna þeim og lærðu strax tölurnar og algengustu orðin sem notuð eru í afgreiðslu. Þau hafa svo sjálf verið að hlaða utan á og segja má að þau séu í íslenskunámi allan daginn. Það sem öllu máli skiptir er að þeim líður hvergi betur en akkúrat hér hjá okkur á Reyðarfirði og ætla að vera áfram, sem við hvetjum þau til að gera og munum reyna allt til þess að halda þeim því þetta er virkilega góður hópur sem stendur sig mjög vel og móralinn á stöðinni er góður,“ segir Dýrunn Pála. 


Greindu ekki sjálf frá vandanum
Dýrunn Pála segist ekki hafa búist við slíkum viðbrögðum frá viðskiptavinum, en sjálft lét starfsfólkið hana ekki af vandanum. „Ég bjóst alveg við einhverju nöldri, en ekki þessu. Að fólk standi virkilega fyrir framan okkar starfsfólki og segi svo ljóta hluti og hreinlega niðurlægi þau, það fannst mér virkilega sárt.

Ég var farin að taka eftir þessu, það kom oft annar svipur á viðskiptavini þegar við íslenska starfsfólkið mættum við hliðina á erlenda starfsfólkinu þegar við áttuðum okkur á því að eitthvað var í gangi – þá var eins og fólk stoppaði og breytti sínu viðmóti. Ég var einnig farin að heyra umræðu um stöðina út í bæ, að ekki væri hægt að koma hingað inn og það var jafnvel farið að uppnefna okkur með ýmsum misfallegum nöfnum,“ segir Dýrunn Pála og segir að þetta hafi orðið til þess að hún skrifaði umrædd skilaboð á dögunum.

„Ég útskýrði miðann fyrir mínu starfsfólki og spurði hvort þau væru samþykkt því að hann færi upp. Við það opnuðu þau sig og sögðu mér allt saman og ein stelpan hreinlega brotnaði niður. Eftir að skilaboðin voru sett upp hafa í það minnsta tveir viðskiptavinir komið og beðið starfsfólkið velvirðingar á framkomu sinni.“ 


Tökum vel á móti fólki sem hér vill búa
Dýrunn Pála vonar að slík hegðun viðskiptavina sé á undanhaldi. „Þetta er bara starfsfólk sem er að vinna sína vinnu og gerir það vel, eigum við ekki bara að bera virðingu fyrir hvert öðru, sama hver er? Sjálf bjó ég fimm ár í Danmörku og vil bara fá að búa þar sem ég vil, auk þess sem börnin mín búa erlendis. Við bara verðum að fara að horfast í augu við staðreyndir málsins, að við búum orðið í fjölmenningarsamfélagi, við erum ekki bara Íslendingar með Íslendingum, heimurinn er bara ekki þannig lengur. Ég held við bara verðum að fara að vera opnari og taka vel á móti fólki sem hjá okkur vill búa.“

Miði í Olís

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.