Erfitt að bjóða fjarnám í ýmsum kennslugreinum HÍ segir rektor

Í mörgum kennslugreinum við Háskóla Íslands er eðli námsins þannig að erfitt er að bjóða það sem fjarnám segir Jón Atli Benediktsson, rektor skólans.

Mikil viðbrögð hafa orðið við umfjöllun Austurfréttar á vandkvæðum þess fyrir fólk á landsbyggðinni að stunda fjarnám við Háskóla Íslands eins og lesa má til dæmis um hér. Sá skóli að margra mati langt á eftir öðrum hvað námsaðgengi varðar þar sem oftar en ekki er um staðbundið nám að ræða sem sækja verður til Reykjavíkur með tilheyrandi róti og kostnaði.

Austurfrétt óskaði viðbragða frá Jóni Atla Benediktssyni, rektors skólans, vegna málsins. Hann ítrekar í svörum sínum að skólinn sé markvisst að vinna að eflingu fjarkennslu og það ferli sé langt komið í sumum deildum skólans. Að sama skapi sé flókið í mörgum kennslugreinum að laga námið að fjarkennslu.

Framboð fjarnáms hefur aukist töluvert

„Umfang fjarnáms innan skólans er töluvert og er mikilvægt að byggja á því starfi. Reynsla og þekking á fjarkennslu er til dæmis mikil á Menntavísindasviði.  Þar er lögð áhersla á að bjóða sem mest af námskeiðum bakkalárnáms (grunnnáms) bæði í staðnámi og í fjarnámi með staðbundnum kennslulotum. Framboð skipulagðs fjarnáms á öðrum fræðasviðum Háskóla Íslands er takmarkaðra, þótt það hafi aukist töluvert á síðustu árum. Í mörgum kennslugreinum er eðli námsins þannig að erfitt er að bjóða það sem fjarnám – en þó ekki öllum.“

Rektor bendir á að eitt forgangsverkefna í nýrri framtíðarstefnu skólans sé að bjóða upp á nám í fjarkennslu á völdum námsleiðum með auknum sveigjanleika. Þar með talið að fjarnám verði boðið fram sem heilstæð námsleið í stað stöku námskeiða.

„Til að Háskóli Íslands geti boðið upp á gott fjarnám þar sem ýtrustu kröfum um gæði námsins er tryggð þarf að huga að fjölmörgum þáttum. Meðal annars efla aðgengi að kennslu, tryggja betri innviði fyrir fjarkennslu, tryggja fjármagn til innleiðingar og rekstur stefnu, undirbúa gæðaviðmið og auka stuðning fyrir kennara og nemendur skólans. Háskóli Íslands hefur markvisst unnið að þessum þáttum þótt að COVID-19 hafi seinkað aðgerðaráætluninni um hálft ár.“

Mynd Háskóli Íslands

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.