Er verið að féflétta nemendur í söngkeppni framhaldsskólanna?

braedslan_2011_0166_web.jpg
Vinsældakosning um hvaða lög komast í lokakeppni söngvakeppni framhaldsskólanna er markaðsbrella til að féflétta nemendur skólanna. Fyrirkomulagið rýrir verulega möguleika minni skólanna.

Þetta er mat Þorbjarnar Rúnarssonar, sem er í námsleyfi sem áfangastjóri Menntaskólans á Egilsstöðum, en hann viðrar hana á bloggsíðu sinni
 
„Hér er nefnilega á ferðinni dæmigert tækifæri til markaðsmisnotkunar á risastórum (um tólf þúsund ungmenna) neytendahópi. Einkafyrirtæki, sem hefur haldið utan um þessa keppni síðustu ár, fékk fulltrúa framhaldsskólanema til að samþykkja að allir framhaldsskólanemar á Íslandi borgi hundruð króna fyrir að kjósa sitt lag áfram. Monní in ðe bag.“

Breytt fyrirkomulag keppninnar í ár hefur vakið deilur, svo harðvítugar að eitt nemendafélagið gekk úr Félagi framhaldsskólanema. Fulltrúar 32 skóla eru skráðir til leiks í forkosningunni á netinu, af þeim komast tólf áfram í lokakeppnina í Reykjavík á laugardagskvöld sem Sjónvarpið sýnir beint. Rökin fyrir þessari breytingu hafa verið að stytta keppnina og auka gæðin þannig hún gangi betur í sjónvarpi.

Þorbjörn spáir því að nemendur kjósi með atriði síns skóla og það skili fjölmennustu skólunum áfram. „Gæði söngsins eða atriðisins í heild skiptir engu máli. Fæstir leggjast í að skoða alla keppendurna og kjósa svo það sem þeim finnst flottast.“

Hinir minni séu í raun að berjast á móti straumnum. Hvert atkvæði kostar 119 kr. og geta menn hringt eins oft og þeir vilja. Val dómnefndar hefur 50% vægi á móti símakosningunni. Þorbjörn telur að nemendur litlu skólanna eigi eftir að sjá eftir peningnum og bætir því við að þetta dæmi sé gott til að ræða um markaðssetningu í framhaldsskólum og inntak lífsleiknikennslu.

„Ég ætla að gerast svo djarfur að spá því að MÍ, FNV, FAS, ME, VA, FSN, FSH og Laugar sitji allir heima. Einhverjir þeirra tóku reyndar ekki þátt. Nemendur þessara skóla munu vonandi átta sig á því að þeir voru misnotaðir. Rændir. Áttu aldrei séns.“

Hægt er að sjá atriðin á sérstökum vef á Mbl.is. Kosningunni lýkur á miðnætti í kvöld. Að austan taka þátt Verkmenntaskóli Austurlands og Menntaskólinn á Egilsstöðum. Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað, sem af og til hefur verið með, er hvergi sjáanlegur í ár. AM Events heldur utan um keppnina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.