Er markaðssetning Austurlands í lausu lofti?

saevar_gudjons_fru_mjoeyri.jpg
Ferðaþjónustuaðilum víða á Austurlandi þykir ganga hægt að koma nýrri stoðstofnun austfirskra sveitarfélaga á laggirnar. Þeir óttast að seinagangurinn geti haft slæm áhrif á ferðamannasumarið á Austurlandi þar sem ekki sé nægur kraftur í markaðssetningu svæðisins á lykiltíma. 

Á þingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) síðasta haust var samþykkt að sameina nokkrar stofnanir sem reknar hafa verið á vegum austfirskra sveitarfélaga eins og SSA, Þróunarfélag Austurlands, Markaðsstofu Austurlands og Þekkingarnet Austurlands í eina stofnun. Sú hefur fengið vinnuheitið AST (Austfirskar stoðstofnanir). Til stóð að hún tæki til starfa um síðustu áramót en það dregst fram á vor.

Ferðaþjónustuaðilarnir hafa áhyggjur af markaðsstofuhlutanum en yfirstandandi árstími er háannatími sumarleyfisbókana. Áhyggjurnar koma víða úr fjórðungnum. Þannig kemur fram í nýlegri fundargerð ferðamálanefndar Vopnafjarðarhrepps að „sitt sýnist hverjum um þá breytingu sem í vændum er en góð reynsla er af núverandi formi Markaðsstofu Austurlands, sem missir forræði sitt undir stoðkerfið með verkefnisstjóra og engan framkvæmdastjóra.“

Ásta Þorleifsdóttir, sem stýrt hafði Markaðsstofunni undanfarin þrjú ár, hætti um síðustu áramót. Sigrún Lóa Kristjánsdóttir stýrir þeim verkefnum sem féllu undir stofuna í dag.

Einhver sveitarfélög hyggjast fara með eigin markaðssetningu inn í hina nýju stofnun. Þannig er enginn ferðamálafulltrúi lengur starfandi í Fjarðabyggð. „Á þessum tíma sem allt er að gerast erum við með Markaðsstofu Austurlands hangandi í lausu lofti,“ sagði Sævar Guðjónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og ferðaþjónustubóndi á Mjóeyri á fundi bæjarstjórnar fyrir skemmstu. 

Elvar Jónsson, oddviti Fjarðalistans, tók undir áhyggjur Sævars. „Ég hef áhyggjur af því að við drögum það of lengi að koma okkar ferðamálum aftur í gang.“

Guðmundur Þorgrímsson, Framsóknarflokki, hvatti menn til að styðja við vinnuna. „Það er óþægilegt að standa upp með að ekki sé starfandi ferða- og menningarfulltrúi í sveitarfélaginu. Stofnanirnar verða ekki sterkar nema við komum störfunum inn í þær og ég sá fyrir mér að starf ferðamálafulltrúa Fjarðabyggðar færi inn í stofnunina.“
 
Atvinnu- og menningarnefnd Fjarðabyggðar ákvað á síðasta fundi sínum að fresta ráðningu nýs ferðamálafulltrúa þar til búið verði að ákveða hvaða verkefni sveitarfélagið færir til hinnar nýju stofnunar. Það á að koma í ljós eigi síðar en 1. júní. Víðar á Austurlandi hafa starfslýsingar eða starfshlutföll ferðamálafulltrúa breyst undanfarin misseri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.