Orkumálinn 2024

Enn haldið í vonina um að reyna að finna loðnu í hrognatöku

Næsta umferð loðnuleitar hefst um helgina þegar skipin Ásgrímur Halldórsson og Polar Amaroq láta úr höfn. Formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir grafalvarlega stöðu uppi ef engin loðna finnst.

„Þetta er að verða síðasti séns að það mælist eitthvað. Tíminn er að renna út miðað við hefðbundna loðnu en menn vonast til að finna eitthvað smávegis af loðnu til hrognatöku,“ segir Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).

Þrátt fyrir mikla leit hefur ekki enn fundist loðna í slíku magni að Hafrannsóknastofnun treysti sér til að gefa út kvóta til veiða. Áfram verður haldið um helgina þegar Polar Amaroq, skip dótturfélags Síldarvinnslunnar og Ásgrímur Halldórsson frá Höfn láta úr höfn.

Til stendur að Ásgrímur fari suður fyrir land og kanni hvort loðna sé að koma inn á svæði þar en Polar Amaroq, sem beðið hefur í Reykjavíkurhöfn í vikunni, heldur til vesturs. „Það hefur komið vesturganga síðustu ár og menn halda í vonina um að hún láti sjá sig,“ útskýrir Jens.

Rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar eru bundin í öðrum verkefnum auk þess sem fjárheimildir stofnunarinnar til loðnuleitar munu vera uppurnar en fiskifræðingar stofnunarinnar verða um borð í skipunum tveimur. Leitin verður því kostuð af útgerðunum sem gera út á loðnu en þær hafa þegar kostað til vel yfir 100 milljónum króna frá byrjun árs við loðnuleit.

En tekjutapið sem útgerðin, samfélögin og ríkissjóður verða fyrir ef ekki verður loðnuvertíð í fyrsta sinn frá árinu 1963 er mun meira. „Staðan er grafalvarleg. Fyrir samfélögin á Vopnafirði, Fjarðabyggð, Höfn og Vestmannaeyjum yrði það gríðarlega mikið högg ef ekki fyndist loðna. Þetta er vertíð sem haft hefur í for með sér uppgrip fyrir fólkið, samfélögin og fyrirtækin,“ segir Jens.

Skip austfirsku útgerðanna hafa flest verið á kolmunnaveiðum á alþjóðlegu hafsvæði vestur af Írlandi síðustu vikur á meðan enga loðnu hefur verið að hafa. Þangað sækja þau með ærnum tilkostnaði því á miðin er þriggja daga sigling aðra leið. Íslendingar hafa til þessa veitt stóran hluta kolmunnakvótans í færeyskri lögsögu en ósamið er um veiðar milli ríkjanna.

„Það er mikil óvissa fyrir þau samfélög og fyrirtæki sem treysta á uppsjávarveiðar. Kolmunnann þarf að sækja á eitt versta veðursvæði í heimi með ærnum tilkostnaði í ferðum og veiðarfæratjóni fyrir utan að það er mikil óvissa um hvort takist að veiða allan kvótann þar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.