Enn fínasta færi á Mjóafjörð

Vegurinn yfir Mjóafjarðar er enn opinn sem telst til tíðinda þegar komið er fram á aðventu. Íbúar úr firðinum hafa því átt greiðari aðgang að þjónustu en oftast áður og getað fengið til sín gestu.

„Ég fór yfir heiðina í fyrradag, það var nánast eins og að sumri. Foreldrar mínir keyrðu yfir hana í gær og þá var bara smá föl,“ segir Margrét Sigfúsdóttir, íbúi á Mjóafirði. Samkvæmt kortum Vegagerðarinnar er snjóþekja á heiðinni en hún vel fær.

Hún segir að leiðin yfir Mjóafjarðarheiði hafi oft orðið illfær seint í október og haldist þannig í um þrjár vikur. „Þá hefur snjóað þannig að það hefur verið til trafala fyrir annað en stærstu jeppa.“

Smá saman hafi snjóinn tekið upp aftur og oft orðið fært yfir aftur í einhvern tíma. „Þessi opnun um miðjan nóvember stendur oft stutt yfir. Síðan snjóar aftur og eftir það finnst manni þetta verið búið.“

Mjóafjarðarheiðin hefur sem sagt verið meira og minna greiðfær í vetur, þótt varað hafi verið aurbleytu á henni þegar rigndi sem mest um miðjan nóvember. „Það var leiðinlegt þá, mér var ekki vel við að vera á ferðinni. Það bætti heldur ekki úr skák að það voru framkvæmdir og rask með þeim efst á heiðinni.“

Nota tækifærið í skreppiferðir

Margrét segir Mjófirðinga njóta þess að hafa veginn opinn fram á aðventu. „Það er mjög gaman að hægt sé að fara svona á milli. Maður notar tækifærið fyrir jólin, fer í klippingu og kaupir jólagjafirnar. Síðan er hægt að sækja viðburði, í gær var ég til dæmis á vinnustofu með austfirskum ferðaþjónustuaðilum.“

Umferðin gengur nefnilega í tvær áttir en Margrét leigir út sumarbústaði í Mjóafirði sem hafa núna nýst óvenju lengi. „Ég hef opnað fyrir gistingu nokkra daga. Ég hafði ekki opið á rigningartímabilinu auk þess sem ég fer varlega í auglýsingum til erlendra ferðamanna, þeir eru óvanari færðinni en ég var með Íslendinga í öðrum bústaðnum um síðustu helgi. Frá 2017 hef ég kennt í Egilsstaðaskóla og því verið á Egilsstöðum frá miðjum ágúst en núna er á Mjóafirði. Því er gaman að hitta á góða tíð og geta þreifað sig áfram með þetta.“

Hún segist ekki muna eftir að tíðin hafi oft verið svona. „Fyrir um 20 árum man ég að eitt haustið var svipað upp á teningnum. Ég man að við gátum sótt jólamarkaðinn á Héraði. Þá var opið fram að jólum en undir áramót byrjaði að snjóa og eftir það var leiðinlegt að fara. Það hefur samt alltaf verið þannig að fólk á stórum jeppum hafa látið sig vaða yfir þótt kominn sé snjór.“

Hæsti punktur vegarins yfir Mjóafjarðarheiði er í 578 metra hæð. Hann er því trúlega þriðji hæsti fjallvegur landsins með einhvers konar reglubundinni umferð, hæst er Fjarðarheiðin í 620 metrum og þar á eftir Langidalur á Möðrudalsöræfum í 600 metrum. Ekki er vetrarmokstur á heiðinni að öðru leyti en því sem sveitarfélagið Fjarðabyggð leggur til. Á veturna gengur bátur til Norðfjarðar.

Framundan er snjókoma og erfitt að spá um hvað verður. „Ef það er úrkoma og vindur, jafnvel bara úrkoma, þá skefur fljótt í skafla. Þetta virðist mest éljagangur, engin grimmd, næstu daga. Ég vona að þetta verði í lagi eitthvað áfram,“ segir Margrét að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.