Enn engin áform um að takmarka ferðir til og frá Austurlandi

Afstaða Almannavarna til samgöngubanns til og frá Austurlandi er óbreytt. Ekki stendur til að innleiða það þótt fá smit hafi komið upp á svæðinu.

Þetta var meðal þess sem fram kom á upplýsingafundi Almannavarna og embættis landlæknis í dag.

Ekkert nýtt smit hefur greinst eystra síðan á miðvikudag, á sama tíma og þau tilmæli hafa verið gefin út að fólk eigi helst ekki að vera á ferðinni um páskana. Á fundinum í dag var spurt að því hvort í ljósi þessa kæmi til greina að takmarka ferðir í einhvern tíma inn og út af Austurlandi.

„Við funduðum með Austfirðingum um daginn, sveitarstjórum og lögreglustjóra og fórum yfir málið. Niðurstaðan var að gera það ekki og ég veit ekki til þess að það hafi breyst,“ svaraði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur áður lýst því yfir að fræðilegar athuganir bendi til þess að slíkar aðgerðir skili litli. Þær geti tafið faraldra en ekki stöðvað. Þá hefur einnig komið fram á fundunum að líkur séu á að hápunktur sóttarinnar verði síðar á Austfjörðum en annars staðar.

Samkvæmt tölum frá í gær eru sex smitaðir af covid-19 veirunni á Austurlandi, allir á Fljótsdalshéraði. Í nokkrum bæjarfélögum á landsbyggðinni, svo sem Vestmannaeyjum, Hvammstanga og Bolungarvík, hefur veiran náð að breiðast út með ógnarhraða. Þórólfur var spurður út í þær sýkingar á fundinum í dag.

„Hópsýking er þegar allt í einu blossar upp óvenjulegur fjöldi tilfella, eins og gerst hefur í 3-4 bæjarfélögum hér, auk höfuðborgarsvæðisins. Svona eru smitsjúkdómar, þeir hegða sér svona.“

Þá var spurt út í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Alma Möller, landlæknir, sagði að um 260 einstaklingar hefðu skráð sig í sveitina óháð staðsetningu auk þess sem nokkrir hefðu skráð sig á ákveðnar heilbrigðisstofnanir á landinu í landsátaki. Þar fyrir utan hafa ákveðnar stofnanir verið með eigin liðssöfnun. Alma sagði Sjúkratryggingar Íslands hafa milligöngu um að finna húsnæði undir fólk úr bakvarðasveitum ef þyrfti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.