Enn bálhvasst á Djúpavogi

Skemmdir eftir óveðrið í gær eru smám saman að koma í ljós í kringum Djúpavog þótt ekki virðist hafa orðið mikið tjón í sjálfu þéttbýlinu.

„Það virðist ekki hafa verið mikið af skemmdum hér á Djúpavogi. Það voru einhverjar járnplötur að losna sem þurfti að binda niður. Einn garðkofi splundraðist og tveir aðrir fóru af stað.

Síðan voru það einhverjir lausamunir en ekkert stórt,“ segir Ingi Ragnarsson, formaður björgunarsveitarinnar Báru á Djúpavogi.

Ferðalöngum var komið til aðstoðar ofan af Öxi. „Þetta fólk fór framhjá lokunarpósti, síðan brotnaði rúða í bílnum hjá því. Við höfum séð einhverja bíla með brotnar rúður. Annars var veginum lokað áður en það varð mjög hvasst,“ segir Ingi.

Ekki sé þó útilokað að enn eigi eftir að koma einhverjir hlutir í ljós. „Það er enn bálhvasst hér og ekki hægt að fara neitt um. Við gerum það þegar lægir. Við höfum ekkert náð að kíkja í sveitirnar enn,“ útskýrir Ingi.

Hann bætir þó við að þaðan hafi borist tíðindi af því að þakplötur hafi farið af útihúsum auk þess sem útihús í Álftafirði hafi skemmst verulega.

Félagar í Báru að störfum í gær. Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.