Orkumálinn 2024

Engir samningar tilbúnir til undirritunar við Nubo

huang_nubo.jpg
Bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs hafnar því að samningar séu tilbúnir til undirritunar við kínverska fjárfestirinn Huango Nubo um leigu á jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum. Kínverskir fjölmiðlar sögðu í vikunni að skrifað yrði undir í næsta mánuði og fögnuðu nýjustu fjárfestingu síns fólks á Vesturlöndum.

„Málið er í þeirri stöðu að fyrir liggja samningsdrög og næsta skref er að taka þau til umfjöllunar í sveitarfélögunum sem eru aðilar að GáF,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs.
 
Sveitarfélagið er eitt þeirra sem komu að stofnun GáF ehf. Félagið hefur kannað möguleg kaup nokkurra sveitarfélaga á jörðinni með það að markmiði að leigja hana Nubo.

„Á þessari stundu er óvarlegt að gefa eitthvað út um hvenær þessi drög leiða til samninga eða hvort þau gera það. Framkomnar upplýsingar í fjölmiðlum um að til standi að skrifa undir samninga í næstu viku eiga því ekki við rök að styðjast.“

Dramað hlýtur farsælan endi

Kínverska fréttaveitan Xinhua greindi frá því í vikunni að Nubo hefði fengið „grænt ljós“ hjá íslenskum stjórnvöldum til að leigja landið. „Hið árs langa drama hlýtur farsælan endi,“ að því er segir í kínversku fréttinni.

Haft er eftir Nubo að Íslendingar hafi lofast til að skrifa undir samninga í Kína í næsta mánuði. Á sama tíma muni fyrirtæki hans efna til blaðamannafundar hérlendis því Íslendingar „vilji líka vita hvað hafi gerst.“

Frekari landvinningar á Norðurlöndum

Ísland er samt ekki eini áfangastaður Nubos sem hefur uppi áform um uppbyggingu sambærilegra ferðamannasvæða í Noregi, Finnlandi, Svíþjóð og mögulega fleiri stöðum í Norður-Evrópu á næstu fimm árum.

Í frétt Xinhua er útrás Nubos fagnað sem nýjasta viðskiptaafreki Kínverja. Það sé merki um að kínversk fyrirtæki hafi þróast frá því að fjárfesta aðeins í þróunarríkjum í að vera reglulegir fjárfestar í iðnríkjunum. 

Viðhorf iðnríkjanna til Kína verður að breytast

Rakið er að mörg ljón hafi verið í veginum fyrir landaleigu Nubos og að umræða um störf hans fyrir kínverska samgöngumálaráðuneytið og Kommúnistaflokkinn hafi skemmt fyrir honum. Einnig hafi sérfræðingar á Vesturlöndum haldið því fram að verkefni Nubos væri fyrirsláttur fyrir baráttu Kínverja um ítök við Norðurskautið. Fleiri kínversk fyrirtæki hafi mátt þola slíkar ásakanir.

Fréttamaður Xinhua skrifar að slíkir sérfræðingar virðist enn lifa eftir viðhorfi kalda stríðstímans. „En þar sem iðnríkin eru vön því að fjárfesta í Kína verður viðhorf þeirra gagnvart fjárfestingu frá Kína að breytast. Á tímum hnattvæðingar mun verða frekari fjárfesting frá næst stærsta efnahagskerfi heimsins.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.