Engir brunahanar á iðnaðarsvæðinu á Egilsstöðum
„Við höfum áður vakið athygli á því að það væri betra að hafa brunahana á þessu umrædda svæði en í þetta skipti þá slapp þetta vel til enda fengum við góða aðstoð frá björgunarsveitarfólki,“ segir Haraldur Geir Eðvaldsson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Austurlands.
Afar vel gekk að ráða niðurlögum eldsvoðans í húsnæði Vasks á Egilsstöðum í gær og var samdóma álit þeirra sem með fylgdust að vinnubrögðin hefðu verið snögg og fumlaus. Var búið að slökkva síðustu glæðurnar snemma í gærkvöldi þrátt fyrir mikinn eldsmat innandyra en vakt var við húsið fram til morguns.
Það vakti þó athygli að slökkvilið þurfti að fara nokkurn spotta að brunahönum sem eru beggja vegna lögreglustöðvarinnar á Egilsstöðum til að komast í vatn en þeir hanar eru í nokkur hundruð metra fjarlægð frá húsnæðinu sem brann. Engir slíkir hanar eru til staðar innan iðnaðarsvæðisins sjálfs. Þurfti slökkvilið á tímapunkti að fara alla leið að húsnæði Nettó til að fylla á tankbíl slökkviliðsins.
Haraldur segir það vissulega bagalegt og tímafrekt ef fara þarf langa leið með þungar slöngurnar en það hafi vel gengið í gær sökum góðrar aðstoðar en sérstakur samningur er í gangi við björgunarsveitina Hérað um aðstoð við slíkt þegar eldur kemur upp.
„Auðvitað væri skynsamlegra að hafa brunahana nær slíku iðnaðarsvæði en raunin er og það sannarlega eitthvað sem við höfum bent á áður og munum ræða það áfram í kjölfar þessa atburðar.“