Engin lyfta í Safnahúsinu: Fólk sækir ekki bókasafnið því það kemst ekki upp stigann

safnahus_egs_stigi_web.jpg
Aðgengi hreyfihamlaðra að Bókasafni Héraðsbúa, sem staðsett er á þriðju hæð Safnahússins á Egilsstöðum, er verulega skert. Upp á hæðina liggur aðeins snarbrattur stigi, engar lyftur fyrir hjólastóla eru í húsinu. Dæmi eru um að fólk heimsæki ekki bókasafnið vegna þessa.

„Ég veit um fólk sem segist ekki heimsækja bókasafnið því það komist ekki upp stigann,“ segir Jóhanna Hafliðadóttir, forstöðukona Bókasafnsins.

Bókasafn Héraðsbúa flutti inn í húsið árið 1996 en það hýsir einnig Minjasafn Austurlands og Héraðsskjalasafnið. Húsið er aðeins hálfklárað og alveg vantar þann hluta hússins þar sem lyfta átti að vera.

Því verða menn að notast við stiga sem þykir brattur og erfiður yfirferðar, því tröppurnar eru allar kolsvartar og eiga sjónskertir erfitt að sjá skil á þeim þegar þeir fara niður þær.

Jóhanna segir að bæði ungir sem aldnir kvarti undan stiganum. Að auki skapi þetta starfsfólki hússins vandræði þegar flytja þarf hluti á milli hæða.

„Það er erfitt að bjóða upp á viðburði uppi á bókasafninu vegna þessa og að auki skapar þetta erfiðleika fyrir starfsfólk að koma þungum hlutum á milli hæða.“

Starfsfólk bókasafnsins reynir eftir fremsta megni að þjónusta þá sem ekki komast, eða treysta sér, eftir stiganum. 

„Við höfum leyst vandann með því að færa fólki bækur heim eða ættingjar hafa náð í bækur fyrir fólkið sitt. Einstaka dugnaðarforkar láta sig hafa það og fara stigann, þrátt fyrir mikla erfiðleika.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.