Engar úthlutanir til Fjarðabyggðar úr Fiskeldissjóði

Bæjarráð Fjarðabyggðar skorar á Svandísi Svavarsdóttur, matvælaráðherra, að endurskoða hið fyrsta úthlutanir úr svokölluðum Fiskeldissjóði og íhuga jafnframt að leggja sjóðinn alfarið niður. Aðeins 32 milljónum af rúmlega 180 alls í sjóðnum var úthlutað austur á land og sú upphæð öll til Múlaþings.

Úthlutanir úr Fiskeldissjóði, sem ætlað er að styrkja uppbyggingu innviða á þeim stöðum þar sem fiskeldi er stundað, fóru allar til Vestfjarða utan eins styrks til Múlaþings vegna fráveituframkvæmda á Djúpavogi að upphæð 32,4 milljónir króna.

Það voru sjálfstæðismenn í bæjarráði Fjarðabyggðar sem létu bóka ofangreinda áskorun til ráðherra en bæjarráð allt tók undir enda séu það „sérstök vonbrigði að ekkert verkefni í Fjarðabyggð hafi hlotið útdeilingu úr sjóðnum á þessu ári.“ Ekkert annað sveitarfélag á landsvísu hefur að geyma jafn mikið sjókvíaeldi og Fjarðabyggð og þung áföll dunið yfir því eldi síðustu vikur og mánuði.

Létu sjálfstæðismenn bóka að tekjur vegna gjaldtöku fiskeldis í sjó og ætlað sé til innviðauppbyggingar í sveitarfélögunum þar sem sjókvíaeldi er stundað ætti að renna beint til sveitarfélaga án aðkomu sérstaks Fiskeldissjóðs.

Athygli vekur að við skoðun á úthlutunum úr Fiskeldissjóði þetta árið að Patreksfjörður fær úthlutaðar rúmar tíu milljónir króna til gangstéttagerðar í bænum. Allar úthlutanir 2022 má finna hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.