Engar marktækar fréttir um loðnu fyrr en leit hefst

Fréttir eru farnar að berast af því að loðna finnist í þroski sem veiddur hefur verið innan íslensku lögsögunnar. Samkomulag er í höfn milli Hafrannsóknastofnunar og útgerða um fjármögnun leitar en vart verður haldið af stað í loðnuleit fyrr en um miðja næstu viku.

Samkomulagið náðist á fundi seinni part mánudags. Samkvæmt því mun stofnunin greiða helming kostnaðar, um 30 milljónir króna, við úthald tveggja skipa sem útgerðirnar leggja fram á móti Árna Friðrikssyni, skipi Hafró.

Í bókun bæjarráðs Fjarðabyggðar á mánudag var gagnrýnt að stofnunin væri illa í stakk búin til loðnuleitar þar sem annað skip hennar væri í viðgerð.

Búið er að kvarða nokkur skip til leitarinnar, þar á meðal Börk NK, skip Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar segir rannsóknirnar það umfangsmiklar að eitt skip frá Hafrannsóknastofnun dugi ekki. Fiskiskipin séu hins vegar með mælibúnað sem nýtist við rannsóknirnar þannig þau geti komið í stað annarra skipa stofnunarinnar. „Það eru nokkur skip sem eru klár í þessa leit, þannig að það dugir alveg eitt skip frá Hafró.“

Veðurspá er hins vegar með þeim hætti að ekki er útlit fyrir að farið verði af stað til loðnuleitar fyrr en eftir þriðjudaginn 14. janúar.

Fréttir hafa borist síðustu daga af loðnu í kringum landið, þannig fannst loðna í þorski sem Gullver, eitt skipa Síldarvinnslunnar, landaði á Seyðisfirði á mánudagskvöld.

„Það eru einhverjar fréttir um loðnu í fiski bæði fyrir austan og vestan. Síðan hafa heyrst fréttir að línubátar fyrir Norðurlandi hafi séð eitthvað. En það koma engar marktækar fréttir fyrr en rannsóknar- eða fiskiskip fara af stað til leitar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.