Engar formlegar viðræður á Héraði

Engar formlegar viðræður eru hafnar um myndun meirihluta í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs. Sjálfstæðisflokkur og Héraðslisti, sem standa eftir úr núverandi meirihluta, þurfa að útkljá deilur um fráveitumál.

„Við höfum ekki hafið neinar formlegar viðræður. Við höfum talað við alla, þó mest við Önnu,“ segir Steinar Ingi Þorsteinsson, oddviti Héraðslistans og vísar þar til oddvita Sjálfstæðisflokksins, Önnu Alexandersdóttur.

Framboðin mynduðu meirihluta með Á-listanum á síðasta kjörtímabili. Á-listinn bauð ekki fram aftur en tilfærslur í fylgi urðu á þann veg að Héraðslisti og Sjálfstæðisflokkur geta haldið áfram samstarfinu.

Fráveitumál voru eitt af stærstu málunum fyrir kosningar á Héraði og voru framboðin tvö þar með ólíkar lausnir. Steinar Ingi segir að það mál þurfi að skoða vel og finna niðurstöðu til að geta myndað meirihlutann. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst standa báðir aðilar nokkuð fastir á sínu.

Héraðslistinn var sigurvegari kosninganna á Héraði, fékk 30% fylgi og bætti verulega við sig frá kosningunum 2014. „Okkur er óskað til hamingju hvar sem við komum, jafnvel af gömlum Sjálfstæðismönnum. Menn grínast með að þetta hafi verið herkænskulist úr fótboltanum,“ segir Steinar sem starfar sem knattspyrnuþjálfari.

„Ég held að stefna okkar í umhverfismálum hafði höfðað vel til kjósenda auk þess sem við náðum góðu sambandi við ungt fólk í sveitarfélaginu,“ svarar Steinar aðspurður um forsendur árangurs Héraðslistans.

Héraðslisti og Sjálfstæðisflokkur hafa þrjá fulltrúa hvor í bæjarstjórninni og Framsóknarflokkurinn tvo. Tveir af þessum listum geta náð saman um myndun meirihluta út frá fulltrúatölunni. Þá á Miðflokkurinn einn bæjarfulltrúa.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.