Orkumálinn 2024

Eldur í Egilsbúð

Slökkvilið Fjarðabyggðar var kallað út í gærkvöldi, um klukkustund fyrir miðnætti,  vegna elds og reyks í kyndiklefa Egilsbúðar á Norðfirði.

egilsbud_mink.jpgSlökkviliðið var fljótt á vettvang þar sem Slökkvistöðin á Norðfirði er í næsta húsi við Egilsbúð.  Samt var eigandi rekstursins þegar búinn að slökkva eldinn er slökkviliðið kom á staðinn.  Nokkurn reyk lagði frá kyndiklefanum um loftræstikerfi hússins og reykræsti slökkviliðið húsið.

Að sögn Þráins Júlíussonar yfirkokks í Egilsbúð urðu ekki miklar skemmdir á húsinu en lán var að starfsmaður skyldi enn vera í húsinu þegar eldurinn kviknaði, svo hægt var að bregðast skjótt við.

,,Það kviknaði í einhverjum timburfleka í kyndiklefanum, þó eldurinn væri strax slökktur náði reykur að smeygja sér um húsið um loftræstikerfið.  Það er dálítið reykjarlykt úr teppum og gluggatjöldum og það þarf að þrífa allt og djúphreinsa, nú eða skipta teppunum út, fyrir til dæmis parket. Það þurfti ekki að loka hérna, ég mætti í morgun og eldaði eins og ég er vanur, sagði gestunum að kótiletturnar væru birkireyktar en það hefði passað betur að hafa hangiket í matinn, þá hefði enginn tekið eftir neinu", sagði Þráinn.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.