Orkumálinn 2024

Ekki vaknað grunur um fleiri sýkta hunda

Dýralæknir á Egilsstöðum hefur beint þeim tilmælum til hundaeigenda að láta vita verði þeir varir við blóðug uppköst eða niðurgang frá dýrum sínum. Grunur vaknaði fyrir helgi um veirusmit en ekki hafa komið fram fleiri tilfelli.

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum hefur til rannsóknar sýni úr hundi sem drapst á dýralæknastofu á Egilsstöðum á föstudag.

Daníel Haraldsson, dýralæknir, segir að hundurinn hafi borið öll einkenni parvó-veiru sem sé tilkynningaskyld. Hann hafi því strax gert Matvælastofnun og tilraunastöðinni viðvart auk þess settar voru upp smitvarnir á dýralæknastofu hans.

Daníel hefur kallað eftir að hundaeigendur á Austurlandi séu á varðbergi gagnvart blóðugum niðurgangi eða uppköstum hjá hundum sínum.

Daníel segir að óbólusettir eða ungir hundar séu í mestri áhættu því meðal þeirra geti veikin, sem sé bráðsmitandi, breiðst hratt út. Hann vonast þó til að hættan sé takmörkuð þar sem ekki hefur enn vaknað grunur um aðra veika hunda.

Daníel bendir á að alltaf séu einhverjir hundar á svæðinu með magakveisur sem lýsi sér í uppköstum eða niðurgangi. Sjaldnast fari þó á milli mála ef um parvó-veiru er um að ræða, henni fylgi mikið blóð og mikill slappleiki. Hann áréttar að verði hundaeigendur varir við blóðug uppköst eða niðurgöng hjá hundum sínum sé alltaf best að hringja í dýralækni.

Samkvæmt upplýsingum á vef Hundaræktarfélags Íslands hefur smáveirusóttin verið landlæg hérlendis frá árinu 1992 en þá hófust bólusetningar gegn henni. Hundaeigendur eru því hvattir til að láta bólusetja hunda sína reglulega.

Þar kemur fram að veiran leggist á meltingarfæri hunda og valdi í upphafi blóðugum niðurgangi ásamt uppköstum. Í kjölfarið verði hundurinn slappur, fái háan hita ásamt vökvatapi og í verstu tilfellum geti sýkingin leitt til dauða. Veiran leggist þyngst á unga hvolpa og hunda sem eru ekki fullbólusettir. Eldri hundar standi betur að vígi. Meðhöndlun felst meðal annars í vökvameðferð og sýklalyfjagjöf.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.