Ekki þykir óhætt að aflétta frekari rýmingum að sinni

Ekki þykir ráðlegt að aflétta frekari rýmingum á Seyðisfirði að sinni vegna úrkomuspár um helgina. Unnið er að því að reisa bráðabirgðavarnir á svæðinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi. Horft hefur verið til þess að aflétta rýmingu Fossgötu en það þykir ekki rétt að gera að sinni, bæði vegna veðurspár og því varnir eru ekki tilbúnar.

Þunginn í hreinsunarstörfum hefur verið við Fossgötu og húsið Múla, hinu megin Búðarár. Verið er að dýpka farveg árinnar og mynda varnargarð við Fossgötu. Náttúrulegar varnir eru við Múla.

Vonast er til að hægt verði að aflétta rýmingum á þessu svæði í byrjun næstu viku. Þar til verða sendar út daglegar tilkynningar og lengur ef þarf.

Byrjað er að huga að afléttingu rýmingarinnar utan skriðunnar, við Stöðvarlæk. Það er ekki talið ráðlagt enn fyrr en að loknum frekari mælingum og greiningum á sprungusvæði utan stóru skriðunnar sem féll 18. desember. Stefnt er að ákvörðun um þau hús eins fljótt og auðið er. Unnið er að því að reisa bráðabirgðavarnargarða á svæðinu.

Þjónustumiðstöð almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra er með starfsemi í Herðubreið og er opin virka daga.

Einnig er fylgst með hreyfingum í Oddskarðsvegi ofan byggðarinnar á Eskifirði. Vegurinn var í gær opnaður fyrir minni ökutækjum en hann hefur verið lokaður frá því sprungur fundust í honum 18. desember. Ekki er því talið að hætta sé á skriðuföllum en mælingar eru enn í gangi og endanleg niðurstaða ókomin. Fylgst verður vel með hreyfingum í rigningunum um helgina en talið er ólíklegt að nokkuð muni hreyfast.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.