Ekki talið brot gegn sóttkví af ásetningi

Lögreglan á Austurlandi hafði í morgun afskipti af erlendum ferðamanni sem talinn var hafa brotið gegn reglum um sóttkví. Eftir að hafa rætt við viðkomandi var talið að brotið hefði verið framið af misskilningi frekar en ásettu ráði.

Samkvæmt heimildum Austurfréttar er um að ræða erlendan ríkisborgara sem kom til landsins með Norrænu í gær. Samkvæmt reglum skal fólk vera í sóttkví í fimm daga eftir komuna til landsins milli skimana.

Oft á fólk langa ökuferð fyrir höndum við komuna til landsins og skiptir sóttkvínni upp þannig að fyrst er dvalist nærri komustað fyrstu nóttina áður en farið er á áfangastaðinn, eins og planið var í þessu tilfelli.

Þrátt fyrir leiðbeiningar er ferðamaðurinn fékk, bæði skriflegar og munnlegar við komuna til Seyðisfjarðar, skráði hann sig samt inn á gististað á Egilsstöðum í gærkvöldi. Lögregla mun hafa fengið ábendingu um stöðuna í morgun og í kjölfarið rætt við ferðamanninn.

Að sögn lögreglu hafði ferðalangurinn fengið upplýsingar annars staðar frá, eftir að hann kom til landsins, að gististaðurinn tæki á móti einstaklingum í sóttkví. Upphaflega hafði ferðamaðurinn þó ætlað á gististað á Suðurlandi en ekki treyst sér til að keyra af stað þegar farið var að rökkva, en ferð Norrænu tafðist töluvert vegna veðurs og kom hún ekki til hafnar fyrr en klukkan eitt eftir hádegi í gær í stað níu að morgni.

Þegar lögreglan fór að ræða við ferðamanninn kom í ljós að þær upplýsingar sem hann hafði fengið annars staðar frá voru ekki verið fullnægjandi og þess eðlis að misskilningur átti sér stað, sem og vangá viðkomandi sem taldi sig á sóttkvíarhóteli.

Mat lögreglu var því að málið væri á misskilningi byggt en ekki ásetningi. Frásögn ferðamannsins var talin trúanleg auk þess sem viðkomandi hafi verið mjög miður sín yfir því sem gerðist. Ekki var því talin ástæða til að aðhafast frekar og málinu lokið af hálfu lögreglu.

Sýni var tekið úr ferðamanninum vegna Covid-19 við komuna til landsins í gær og reyndist það neikvætt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.