Orkumálinn 2024

Ekki svo einfalt að orkugarðurinn bjargi heiminum

Framboðin til bæjarstjórna Fjarðabyggðar nálgast umhverfismál undir afar ólíkum forsendum. Öll virðast þó sammála um að skoða möguleika sem felast í orkugarði á Reyðarfirði sem framleitt gæti eldsneyti í stað þess sem nú er unnið úr jarðefnum.

Umhverfismál bar á góma á síðasta sameiginlega framboðsfundinum í Nesskóla í gærkvöldi. Þar var sérstaklega spurt út í hvernig framboðin hygðust leggja sitt af mörkum til að stemma stigu við loftslagsbreytingum.

„Við höfum talað um grænan orkugarð út í eitt. Sumir halda að við tölum bara um hann því hann sé grænn en hann er liður í að sporna við loftslagsbreytingum. Heimurinn þarf rafeldsneyti til að knýja áfram tæki og tól. Við hér í Fjarðabyggð höfum tækifæri í byrjun þeirrar þróunar,“ sagði Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri og oddviti Framsóknarflokks.

Í orkugarðinum er gert ráð fyrir að framleiða rafeldsneyti með vetni eftir að vatn hefur verið klofið með rafmagni. Áform eru einnig um að byggja frekari starfsemi sem nýtir hliðarafurðir.

„Þetta er ekki svo einfalt að hér verði búin til ein vetnisverksmiðja og Jón Björn bjargar heiminum en manni hlýnar um hjartað við að heyra það. Þetta er samt flott verkefni,“ sagði Anna Berg Samúelsdóttir, sem skipar annað sætið hjá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Þess utan væri stutta svarið að framboðið vildi gera „allt“ vegna hlýnunar jarðar.

Minni sóun

Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagði öll öfl í núverandi bæjarstjórn hafa staðið saman að metnaðarfullri umhverfisstefnu sem nú þyrfti að fylgja eftir.

Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans, sagði orkuskipti og áherslu á grænni tæknilausnir, svo sem rafeldsneytið, mikilvæg. „Heimurinn er kominn á þann stað að við þurfum á sjálfbærni að halda.“

Hann talaði einnig um að þarft væri að draga úr sóun. Anna Berg talaði á svipuðum nótum, meðal annars um hringrásarhagkerfið. „Hættum að keyra verðmætum út úr sveitarfélaginu,“ sagði hún um lífrænan úrgang sem farið er með annað.

Í framsöguræðu sinni í gærkvöldi talaði hún sérstaklega um efnistöku Norðfjarðarár sem hún sagði vera að eyðileggja vistkerfi árinnar og þar með heimkynni bleikju í henni. „Það hefur verið numið svæði úr öllum hrygingarsvæðum. Vísindamenn segja hrygningarsvæðin þola mikið í leysingum en ekki að vera grafin í sundur. Við ættum frekar að taka malarefni úr sjávarkömum. Viljum við kannski ekki hafa neina bleikju hér eftir 20 ár?“

Ragnar sagði aukna áherslu þurfa á fráveitumál og sagði að ráðherra umhverfismála hefði gefið upp boltann með samstarf við sveitarfélög nýverið. Eins þyrfti að efla flokkun úrgangs og nýtingu.

Fólkvangurinn

Á fundinum í gærkvöldi var einnig spurt út í fólkvanginn í Norðfirði, sem á 50 ára afmæli í ár. Íbúi sagði allt viðhald þar sitja á hakanum og skilti með leiðbeiningum um umgengni hefði ekki sést í tvö ár.

Fátt var um svör við þeirri spurningu áfundinum, enda svartími takmarkaður. Stefán Þór sagðist þó heimsækja fólkvanginn reglulega og honum þyrfti að sinna.

Anna Berg, sem er umhverfisstjóri Fjarðabyggðar, sagði fólkvanginn hafa orðið undir í forgangsröðum sveitarfélagsins síðustu ár en hann þyrfti meiri athygli. Í sumar standi til endurgerð göngustíga og nýtt skilti hafi verið hannað hjá Náttúrustofu Austurlands. „En … bílastæðið er fallegt!“ sagði hún að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.