Ekki staðfest að fituvandræði stafi frá Valaskjálf

Ekki hefur verið staðfest að stíflur í lagnakerfi Egilsstaðabæjar í sumar stafi af fitu sem komi úr Valaskjálf. Þetta staðfestir framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Austurlands (HAUST). Forsvarsfólk hússins segir þegar hafa verið gripið til aðgerða til að bregðast við óskum HAUST um úrbætur.

Austurfrétt greindi í gær frá því að eftirlitið hefði farið fram á að fituskilja yrði sett upp við Valaskjálf vegna kvarta frá HEF vegna fitu sem stíflað hefði fráveitukerfi í nágrenni hótelsins.

Að sögn Leifs Þorkelssonar, framkvæmdastjóra HAUST, hefur í sumar orðið vart við stíflur í götunni Laufskógum, neðan hótelsins. Í samtali við Austurfrétt sagði hann að ekki væri staðfest að fitan kæmi frá Valaskjálf.

Ljóst væri hins vegar að fita væri á ferðinni í kerfinu og líkur taldar á að hún komi úr Valaskjálf. Leifur segir athugasemdirnar ekki alvarlegs eðlis en rétt hafi verið talið að fara fram á úrbætur þar sem úrræði HAUST séu að gera kröfur á staði þar sem líkur séu taldar á mengun.

Í bókun HAUST segir að í starfsleyfi Valaskjálfar hafi verið farið fram á fituskilju frá eldhúsi í síðasta lagi í ársbyrjun 2018. Leifur segir að við nánari athugun hafi komið í ljós að krafan hafi verið gerð á veikum lagalegum grunni. Frá upphafi hafi það verið skilningur bæði eftirlitsins og rekstraraðila að ekki væri þörf á fituskiljunni, nema upp kæmu vandamál. Þegar þau hafi gert vart við sig í sumar hafi verið ákveðið að fylgja því eftir. Samkvæmt bókuninni er frestur veittur til úrbóta fram í mars.

Sigrún Jóhanna Þráinsdóttir, framkvæmdastjóri 701 Hótels ehf. sem rekur Valaskjálf, segir að vandamálin sem hafi komið upp í sumar hafi komið á óvart. Á vegum fyrirtækisins hafi verið rekinn veitingastaður í Valaskjálf undanfarin sex ár án vandræða.

„Þetta er fyrsta sumarið þar sem svona vandamál kemur upp. Og þetta kemur okkur á óvart því ef eitthvað er þá hefur verið dregið úr okkar starfsemi í húsinu, meðal annars með flutningi á matvælaframleiðslunni.

Hins vegar þá hófst ísframleiðsla í húsinu á vormánuðum, á vegum Sauðagulls, sem við þurfum að skoða. Einnig eru fleiri aðilar inná þessari lögn og vandamálið kannski ekki okkar,“ segir hún og bætir við að þegar hafi verið stigin skref til að verða við kröfu HAUST.

„Valaskjálf er gamalt hús og í slíkum byggingum er ekki alltaf hlaupið að því að gera breytingar. Við höfum verið að stíga skrefin til að hægt sé að verða við ósk HAUST um fituskilju. Við tókum eldhúsið í Valaskjálf í gegn 2019. Í þeim breytingum fólust breytingar meðal annars á lagnakerfinu til þess að hægt væri að setja upp fituskilju. En við höfum alltaf lagt okkur fram um að vinna í samræmi við ábendingar HAUST á öllum okkar stöðum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.