Ekki séð nein gögn enn sem gætu breytt forgangsröðum jarðaganga

Formaður byggðaráðs Múlaþings segir engin ný gögn hafa komið fram í samtölum við ráðherra og þingmenn sem breyti því að Fjarðarheiðargöng verði næstu jarðgöng á Íslandi. Beðið er eftir að innviðaráðherra mæli fyrir nýrri samgönguáætlun.

Minnisblað um ferð Berglindar Hörpu Svavarsdóttir, formanns byggðaráðs, Jónínu Brynjólfsdóttur, forseta sveitarstjórnar og Björns Ingimarssonar, sveitarstjóra á fund ráðherra og þingmanna í Reykjavík í lok maí var tekið fyrir á fundi byggðaráðs í morgun.

Í ferðinni var meðal annars fundað með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, embættismönnum í fjármálaráðuneytinu, Vilhjálmi Árnasyni formanni umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, Njáli Trausta Friðbertssyni, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, Ingibjörgu Isaksen, oddvita Framsóknarflokks og fyrsta þingmanni kjördæmisins og Jóni Gunnarssyni, dómsmálaráðherra.

Orð þess síðastnefnda, um að endurskoða bæri forgangsröðun jarðganga á Austurlandi og ráðast frekar í gerð T-ganga, sem liggja frá Héraði til Mjóafjarðar og þaðan til Seyðisfjarðar og Norðfjarðar, frekar en Fjarðarheiðarganga fyrst og þaðan áfram til Norðfjarðar um Mjóafjörð urðu tilefni ferðarinnar. Jón studdi það með vísan í mat almannavarna sem hann sagði sett fram í minnisblaði. Austurfrétt hefur kært ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um synjun á afriti af minnisblaðinu til úrskurðarnefndar upplýsingamála.

Enginn séð minnisblaðið


Þríeykið að austan fékk heldur ekki að sjá minnisblaðið. „Við fórum fyrir hönd sveitarstjórnar. Það tóku allir vel í að hitta okkur og við áttum góða fundi. Við komum okkar sjónarmiðum á framfæri og hlustuðum á alla.

Við fórum við yfir áhyggjur okkar af fréttum af minnisblaði Jóns Gunnarssonar. Við höfum ekki séð minnisblaðið en við höfum vandaða skýrslu starfshóps um jarðgangakosti á Austurlandi frá árinu 2019. Enginn þeirra sem við hittum hafði minnisblaðið undir höndum og við vitum ekki til þess að neinn annar en ráðherrann hafi séð það. Til að taka mark á svona þá verða gögn að koma fram og þau hafa ekki borist enn,“ segir Berglind Harpa.

Jón hefur meðal annars vísað til þess ástands sem skapaðist í kringum aurskriðurnar á Seyðisfirði í desember 2020 og snjóflóðunum í Neskaupstað í lok mars. „Við ítrekuðum að minnisblaðið færi fyrir rýnifund vegna aðgerðanna í mars en hann var haldinn í gær. Ég veit ekki til þess að það hafi farið þangað. Ég hef ekki séð niðurstöður rýnifundarins en ég hef ekki heyrt af því að umræður þær hafi verið í þá átt að það þyrfti að fara aðrar leiðir í samgöngumálum.“

Ekki nógu vandað hjá dómsmálaráðherra


Aðspurð um fundinn með Jóni segir Berglind Harpa: „Við hlutuðum líka vel á hann og færðum fram okkar rök. Án þess að við getum vitnað beint í hann þá fengum við sömu upplýsingar og komið hafa fram í fréttum á hans vegum.“

Nánar aðspurð um hvað henni þyki um orð Jóns svarar hún: „Mér finnst þetta ekki nógu vandað. Þú getur haft þínar stefnur og áherslur í stjórnmálum en þegar búið er að vinna faglega vinnu, eins og nú í aðdraganda Fjarðarheiðarganga, þá er svona ekki til annars að skapa núning innan Austurlands.“

Samstaða um Fjarðarheiðargöng í svæðisskipulagi


Berglind Harpa, sem jafnframt er formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, telur því engar forsendur til að breyta forgangsröðun jarðganga á Austurlandi. Hún var mörkuð með skýrslu starfshópsins 2019 sem taldi mestan hag fyrir Austurland allt að gera hringtenginguna, það er undir Fjarðarheiði og þaðan áfram til Norðfjarðar. Sú leið er í nýlega samþykktu svæðisskipulagi Austurlands. Það mun vera rétthærra aðalskipulagi sveitarfélaga, það er að sveitarfélögum ber að taka tillit til svæðisskipulagsins í eigin skipulagi.

Í ferðinni var ekki fundað með Sigurði Inga Jóhannssyni, innviðaráðherra, enda hitti sveitarstjórnin hann eystra í byrjum maí. Hann hefur kynnt samgönguáætlun 2024-2038 innan ríkisstjórnarinnar en hún er nú til umræðu innan þingflokkanna. Þess er vænst að hún verði formlega lögð fram á Alþingi á allra næstu dögum.

„Ég vona að forgangsröðun jarðganga í samgönguáætlun verði ekki breytt. Ef það gerist verður ekkert unnið í jarðgöngum næstu árin því Fjarðarheiðargöngin eru þau einu sem eru fullhönnuð. Það tekur minnst fjögur ár að hanna göng, fyrir utan annað svo sem umhverfismatið. Þess vegna er eina vitið að halda þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið.

Við stöndum vörð um að tengja Austurland saman og það er engin barátta um annað innan fjórðungs enda full samstaða á bakvið svæðisskipulagið. Austurland skapar það mikil verðmæti fyrir þjóðarbúið að það gæti vel staðið undir eigin uppbyggingu. Það vantar að betur sé gert við okkur.“

Ríkisstjórnin kynnti í gær um aðgerðir til að slá á verðbólguna, sem meðal annars eiga að fela í sér frestun einhverra framkvæmda. Berglind Harpa vonar að jarðgöng á Austurland lendi ekki undir hnífnum þar. „Við vitum að aðstæður eru erfiðar en ef allt fer á versta veg þannig að fresta þurfi framkvæmdum þá má ekki rugla í forgangsröðuninni,“ segir hún.

Vill heyra meira í þingmönnum Norðausturkjördæmis


Sem fyrr segir fundaði hópurinn með tveimur þingmönnum kjördæmisins. „Mér finnst lítið heyrast frá þingmönnum okkar í þessu máli en SSA er samstillt. Við vonum að þingmenn gangi í takt við ákvarðanir Alþingis og bókanir umhverfis- og samgöngunefndar. Ef ekki er tekið mark á þeirri faglegu vinnu og gögnum sem liggja fyrir í þessu máli heldur bara sagt eitthvað og skipt um stefnu, til hvers erum við að leggja í þessa vinnu. Til að breyta forgangsröðuninni þarf mjög góð rök og þau höfum við ekki séð. Við bíðum bara eftir að innviðaráðherra mæli fyrir samgönguáætlun og vonandi að þar verði sama staðfestan og hjá okkur á Austurlandi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.