Ekki rétt að fara í sameiningar í kjölfar neikvæðrar könnunar

Meirihluti hreppsnefndar Vopnafjarðarhrepps felldi á síðasta fundi tillögu minnihlutans um að óska eftir aðild að viðræðum fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi um sameiningu. Íbúakönnun sem gerð var í vor sýndi ekki vilja Vopnfirðinga til sameiningar.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, sem er í minnihluta, lögðu á fundinum fram tillögu um að hreppurinn sækti um að taka þátt í sameiningarviðræðum Fljótsdalshéraðs, Seyðisfjarðarkaupstaðar, Borgarfjarðarhrepps og Djúpavogshrepps.

Í rökstuðningi með tillögunni kemur fram að fulltrúarnir telji þetta rétt skref, meðal annars í ljósi ráðherra sveitarstjórnarmála um að eftir 4-8 ár kunni sveitarfélög með færri en 1000 íbúa að vera sameinuð með lögum. Fulltrúarnir telji einnig að jákvæð áhrif sameiningar yrðu meiri en þau neikvæðu.

Vopnafjörður hefur verið í samstarfi við sveitarfélögin fjögur um brunavarnir og félagsþjónustu síðustu ár. Á grundvelli þess samstarfs fóru í gang viðræður síðasta vetur um frekara samstarf sem endaði með skoðanakönnun sem er forsenda viðræðnanna núna.

Þar lýstu hins vegar 59% þeirra Vopnfirðinga sem svöruðu andstöðu sinni við sameiningu. Í bókun meirihluta Framsóknarflokks og Betra Sigtúns er vísað til þeirrar niðurstöðu. Út frá henni sjái meirihlutinn ekki ástæðu til að fara í viðræður á þessum tímapunkti.

Í annarri bókun lýsa fulltrúar minnihlutans yfir vonbrigðum sínum og segja afstöðu meirihlutans speglast af þröngsýni og einangrunarhyggju.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar