Ekki opnað aftur um Fjarðarheiði og Fagradal í dag

Vegunum yfir Fjarðarheiði og Fagradal hefur verið lokað og verða ekki opnaðir aftur í dag. Leiðinni yfir Fagradal var lokað í hádeginu eftir að snjóflóð féll á veginn.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni féll flóðið, um tíu metra breitt, skömmu fyrir hádegi á þekktum snjóflóðastað og fór yfir veginn.

Björgunarsveitin á Reyðarfirði var kölluð út um svipað leyti til að hjálpa bílum í vanda. Þeir höfðu verið í samfloti með mokstursbílnum en dregist aftur úr og fest.

Þá voru björgunarsveitir á Fáskrúðsfirði og Jökuldal einnig kallaðar út í dag til að hjálpa ferðalöngum í vanda en þá tókst að losa áður en sveitirnar komu á vettvang.

Vegurinn um Fagradal verður ekki opnaður aftur í dag vegna veðurs og snjóflóðahættu og vegurinn yfir Fjarðarheiði verður lokaður til morguns vegna veðurs. Ekkert skyggni hefur verið á vegunum og spáð er áframhaldandi vindi og aukinni úrkomu.

Að auki er ófært í Skriðdal, Hróarstungu og á Vatnsskarði eystra, þæfingur í Hjaltastaðaþinghá, Völlum og Fljótsdal. Vegurinn um Mývatns- og Möðrudalsöræfi hefur haldist opinn. Þar hefur ekki verið úrkoma en hvasst á köflum. Hann mun þó loka eftir að þjónustutíma lýkur klukkan 19:30.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar