Ekki hægt að byrja skimun fyrr en komið var inn á íslenskt yfirráðasvæði

Ekki næst að taka sýni úr öllum farþegum Norrænu áður en hún kemur til hafnar á Seyðisfirði í dag eins og stefnt var að. Persónuverndaryfirvöld í Færeyjum lögðust gegn skimun Íslendinga áður en komið yrði inn á íslenskt yfirráðasvæði.

„Það eru rétt um 630 manns um borð. Það er búið að taka sýni úr rúmum þriðjungi farþega og verður tekið úr þeim sem eftir standa þegar ferjan kemur til hafnar,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.

Rúmur hálfur mánuður er síðan reglur tóku gildi hérlendis um að skima þyrfti alla farþega sem kæmu til landsins. Lagt var til að hópur starfsmanna yrði sendur frá Heilbrigðisstofnun Austurlands til Færeyja og myndi skima um borð í ferjunni á leiðinni til landsins þar sem ferjan stoppar aðeins í höfn á Seyðisfirði í 2,5 tíma á sumaráætlun sem er ekki nægur tími til skimunar.

Til stóð að nota síðustu tvær áætlanirnar á vetraráætluninni til að prufukeyra þetta fyrirkomulag. Af því varð ekki og voru farþegar Norrænu því skimaðir í Seyðisfjarðarhöfn, sem gekk ágætlega.

Ferðin nú er sú fyrsta á sumaráætlun og því voru sex starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Austurlands sendir til Danmerkur þar sem þeir fóru um borð í ferjuna áður en hún lét úr höfn í Hirtshals á þriðjudag. Þar byrjuðu reyndar vandræðin því vegna bilunar fór ferjan nokkrum tímum síðar úr höfn en hún átti að fara. Þá töf hefur ekki tekist að vinna upp að fullu og er Norræna því væntanleg til Seyðisfjarðar nú klukkan ellefu en ekki 8:30 eins og áætlunin segir til um.

Persónuvernd gerir athugasemdir

En um það leyti sem ferjan lét úr höfn í Danmörku barst álit frá persónuverndaryfirvöldum í Færeyjum um að Íslendingarnir mættu ekki byrja að skima farþega fyrr en þeir væru komnir inn á íslenskt yfirráðasvæði, svokallað aðlægt belti sem er 24 sjómílur frá grunnlínu landhelginnar.

„Þetta varð ljóst í þann mund sem ferjan lét úr höfn í Hirtshals og gerði það að verkum að ekki náðist að hefja skimun á þeim tíma sem til stóð. Við gerum ekki ágreining út af því heldur förum í að vinna okkur í gegnum það, sem hefur gengið ágætlega,“ segir Kristján Ólafur.

Aðspurður um hvort þetta hefði ekki átt að liggja ljóst fyrir í tíma, þar sem unnið hefur verið samkvæmt þessari áætlun síðan í byrjun júní svarar Kristján: „Það hefur verið í skoðun hjá stjórnvöldum frá 4. júní hvernig best yrði að þessu staðið í samráði og samstarfi við alla sem að þessu koma. Það var talið að búið væri að hnýta alla lausa enda en síðan gerir persónuvernd Færeyinga þessa athugasemd. Síðan hafa verið í gangi viðræður milli landanna.“

Framhaldið metið fyrir næstu ferð

Kristján Ólafur vonast til að skimunin í Seyðisfjarðarhöfn á eftir eigi eftir að ganga vel fyrir sig. Heilbrigðisstofnun Austurlands fékk í morgun liðsauka frá Íslenskri erfðagreiningu til að herða á henni.

„Norræna má ekki við miklum töfum og við reynum að koma á móts við hana til að lágmarka þær þótt væntanlega þurfi ferjan að stoppa lengur í höfn en áætlað er. Það er komin góð reynsla á verklagið hér, síðustu tvö skipti hafa gengið mjög vel. Það mun flýta fyrir að búið er að skima hluta farþeganna þannig að þessi aðferð hjálpar til.“

Vika er þar til Norræna kemur næst til Seyðisfjarðar og segir Kristján Ólafur að tíminn þangað til verði nýttur til að slípa verklagið. „Eftir þessa ferð kemur í ljós hvert framhaldið verður. Þetta er býsna stórt verkefni og við erum að leita að bestu lausninni þannig að skimunin gangi sem best fyrir sig án þess að kosta þurfi of miklu til.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.