Ekki áhyggjur af ástandi hreindýra enn

Starfsmenn Náttúrustofu Austurlands, sem vakta hreindýr, segjast ekki enn hafa áhyggjur af áhrifum mikilla vetrarharka á dýrin sem eru farin að sækja meira niður í byggð. Líffræðingur segir að áfram verði fylgst með skilyrðum þeirra. GPS tæki á dýrum gefa mikilvægar upplýsingar við þessar kringumstæður.

Austfirðingar hafa síðustu daga orðið varir við hreindýr á stöðum þar sem þau sjást sjaldan, til dæmis innanbæjar á Eskifirði og Seyðisfirði. Að dýrin séu á þessum stöðum kann að benda til að þau eigi erfitt með að komast í æti á sínum hefðbundnu slóðum.

Skarphéðinn G. Þórisson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands, segist að ekki hafi enn borist fréttir um að dýrin hafi fallið vegna jarðbanna. Þótt víða sé hjarn og snjór eigi enn að vera eftir svæði þar sem dýrin komist í æti.

„Það blæs af hæðum og holtum. Við höfum spurnir af þeim uppi á melum. Þau geta kroppað fléttur af steinum sem standa upp úr,“ útskýrir Skarphéðinn.

Gerð til að lifa af á norðurslóðum

Hann bendir á að almennt séu hreindýrin vel aðlöguð vetrinum á norðurslóðum. Á Svalbarða lifi þau við 80 gráðu norðlægrar breiddar. Þau hafi öflugt lyktarskyn og geti fundið æti undir 50 sm. þykkum snjó. Því þurfi þau ekki að eyða mikilli orku í að ráfa um í leit að æti. Vandamálið sé hins vegar umhleypingar þar sem þiðni og frjósi á víxl þannig að klaki myndist undir snjónum. Í gegnum hann geti þau ekki krafsað sig.

Þá séu fullorðin dýr með talsvert fitulag sem hjálpi þeim í gegnum erfiða vetur. Kálfarnir hafa það hins vegar ekki auk þess sem tarfarnir kunna að hafa eytt því í átökum á fengitímanum. Áhættan er mest hjá þeim.

Síðast féllu dýr vegna jarðbanna árið 2016 við Álftafjörð eftir fimm vikna algjör jarðbönnum, að því er Skarphéðinn hefur eftir heimamönnum. Hann bendir hins vegar á að þótt stök dýr falli sé það ekki óeðlilegt, alltaf séu afföll á dýrunum af náttúrulegum orsökum.

GPS sendar gefa upplýsingar um orkumikil dýr

Náttúrustofan, í samstarfi við hreindýraleiðsögumenn, hefur að undanförnu staðið fyrir vöktunarverkefni þar sem fimm GPS sendum var komið fyrir á nokkrum dýrum til að fylgjast með ferðum þeirra. Skarphéðinn segir tækin veita mikilvægar upplýsingar við aðstæður sem þessar. Á þeim sjáist að dýrin hafi enn fulla orku til að flakka um svæði í leit að æti. Skarphéðinn nefnir dæmi um hreindýr sem virðist hafa fælst af Vestdalseyri og rokið eftir Gilsárdal yfir á Hérað. „Það dýr er ekki að falla úr hor.“

Skarphéðinn segir að lengi hafi fólk haft áhyggjur af dýrum í Loðmundarfirði og Víkum vegna snjóa. Þau dýr hafi komið upp á Hérað í snjóléttari svæði síðustu ár. Eitt dýranna sem nýverið fékk staðsetningartæki var við bæinn Klúku, úti við Héraðssand, í 100 dýra hópi sem líklega kom úr Víkum. Skarphéðinn bendir á að sú hreinkýr hafi eftir merkingu rokið langleiðina upp í Stórurð og síðan í fjallið utan við Stapavík þar sem hún virðist una sér vel.

Þótt ekki séu teljandi áhyggjur af stöðu hreindýranna í dag fylgist Náttúrustofan grannt með ástandi þeirra. Þeir sem rekast á hreindýr eru hvattir til að hafa samband við stofuna og láta vita af þeim.

Eins er rétt að hvetja austfirska vegfarendur til að fara með gát. Þannig hefur Austurfrétt spurnir af hreindýrum á veginum í skógunum á Völlum á Héraði.

Kort af ferðum fimm hreindúa sem nýverið voru merktar með GPS sendum. Mynd: Náttúrustofa AusturlandsDemo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.