Ekkert smit enn eystra

Enginn þeirra níu Austfirðinga, sem settir voru í sóttkví fyrir helgi vegna gruns um Covid-19 smit, hefur reynst jákvæður. Ekki hafa fleiri bæst við síðan í sóttkví á svæðinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands. Nefndin hefur að nýju hafið að senda frá sér daglegar tilkynningar um stöðuna í umdæminu eftir að níu einstaklingar voru settir í sóttkví á föstudag. Sýni voru tekin úr þeim þá og reyndist ekkert þeirra jákvætt.

Allir voru settir í sóttkví vegna smita sem greindust á höfuðborgarsvæðinu þar sem um 300 manns hafa verið settir í sóttkví. Verið er að staðfesta uppruna þeirra smita og bíður aðgerðastjórn frekari fyrirmæla sóttvarnalæknis í kjölfarið.

Í tilkynningu aðgerðastjórnar segir að ekki sé nýtt að einstaklingar sem búi eða dvelji á Austurlandi séu í sóttkví. Þó sé horft á þessa nýju stöðu sem alvarlega samfélagslega áminningu um að faraldurinn er ekki horfinn og að brýnt sé Austfirðingar allir saman herði tökin í baráttunni við veiruna.

Því eru íbúar, veitinga- og gistihúsaeigendur, félagasamtök, íþróttafélög, fyrirtæki, þjónustuaðila og aðra á að líta í eigin barm og meta hvort hjá þeim sé enn rétt staðið að sóttvörnum. Aðgerðastjórn minnir fólk á að halda sig heima finni það fyrir einkennum, virði tveggja metra regluna, þvoi sér vel um hendir og noti spritt, sprittbrúsar séu til taks, strokið af sameiginlegum snertiflötum og hvort staðið sé fyrir samkomum, svo sem íþróttaviðburðum, sem rétt sé að aflýsa.

Á vegum almannavarnanefndar Austurlands er sem fyrr fylgst vel með komum erlendra ferðamanna með flugi, ferjum og skútum.

Aðgerðastjórnin áréttar að mjög fá smit hafi greinst í fjórðungnum, átta alls sem sé undir 0,1% íbúa. Afar fáir hafi því mótefni fyrir veirunni. Austfirðingar séu því jafn viðkvæmir fyrir smiti og í upphafi faraldursins. Þetta sé mikilvægt að hafa í huga þegar virkum smitum fjölgi í landinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.