Skip to main content

Ekkert símasamband þar sem bíll brann á Öxi í gær

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. júl 2025 11:50Uppfært 07. júl 2025 12:18

Tveir ferðalangar sluppu með skrekkinn eftir að eldur kom upp í bíl þeirra efst á Öxi í gær. Ekkert símasamband er þar sem atvikið varð. Yfirlögregluþjónn segir gloppótt símasamband víða á svæðinu áhyggjuefni.


Tilkynning um atvikið barst rétt fyrir hádegi í gær. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var fólkið í bílnum, ökumaður og farþegi, á akstri í suðurátt þegar það varð vart við reyk undan framsæti.

Fólkið náði að koma sér út, bjarga mikilvægustu eigum sínum og reyndi að slökkva en réði ekki við eldinn. Slökkvilið Múlaþings kom á staðinn til að slökkva í glæðum en bíllinn er gjörónýtur.

Ekkert símasamband er þar sem atvikið varð og eftir því sem næst verður komist þurfti vegfarandi, sem hringdi í Neyðarlínuna, að keyra spölkorn frá staðnum til að hringja í Neyðarlínuna.

„Það er áhyggjuefni fyrir viðbragðsaðila hversu gloppótt símasamband er víða um Austurland. Bæði almannavarnanefnd Austurlands og Samband sveitarfélaga á Austurlandi hafa vakið athygli á því með von um að brugðist verði við,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn.

Að öðru leyti gekk helgin í lögregluumdæminu almennt vel en nokkur erill því margt fólk var á svæðinu. Nokkur fjöldi var á Reyðarfirði þar sem Landsmót harmonikkuunnenda var haldið en það gekk vel.

Samkvæmt tölfræði lögreglunnar á Austurlandi fyrir fyrstu sex mánuði ársins hefur umferðarlagabrotum og kærum vegna þeirra fjölgað nokkuð frá því á sama tíma í fyrra. Á höfuðborgarsvæðinu segist lögreglan aldrei hafa séð keyrt jafn hratt.

Kristján Ólafur segir þá þróun ekki sjáanlega á Austurlandi. Farið hafi verið yfir meðalhraðatölur frá mælum Vegagerðarinnar, sem eru þrír á Austurlandi og þar sést ekki teljandi aukning. Varðandi fjölgun umferðarlagabrota segir hann að líklegasta skýringin sé aukin áhersla lögregluembættisins á umferðareftirlit.