Ekkert sem tefur Fjarðarheiðargöng

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, segir engar tafir fyrirséðar á framkvæmdum við jarðgöng undir Fjarðarheiði. Breytt fyrirkomulag fjármögnunar krefst þó úrlausna í aðdraganda ganganna.

„Ég fundaði með Vegagerðinni í gær, meðal annars um Fjarðarheiðargöng og þar gengur allt vel. Það er unnið að hönnun ganganna, umhverfismati og leiðarvali í samstarfi við sveitarfélögin.

Á þessu eru engar tafir. Verkið gengur því eðlilega og ekkert sem tefur,“ segir Sigurður Ingi.

RÚV sagði frá því í gær að bæjarfulltrúar í Múlaþingi hefðu fengið þær upplýsingar á fundi með Vegagerðinni að fjóra milljarða vantaði til að hægt yrði að hefja framkvæmdir. Í samtali við Austurfrétt fullyrti Sigurður Ingi að ekkert vantaði upp á fjármögnun til að hefja framkvæmdirnar. „Ekkert bendir til þess að tafir verði á verkinu vegna fjármögnunar eða undirbúningsvinnu annarrar.“

Hann kvaðst ekki geta skýrt nákvæmlega hvers vegna svo hafi virst að fjármagn vantaði til verksins en telur líklegast að breytt fyrirkomulag við fjármögnun hafi skapað misskilning. Til stendur að fjármagna Fjarðarheiðargöng eftir færeyskri fyrirmynd með blöndu af veggjöldum og ríkisframlagi.

„Venjulega er bara fimm ára fjármögnun tryggð í samgönguáætlun og í þessum áfanga áætlunarinnar eru ætlaðir 20 milljarðar í jarðgöng. Með þessum göngum erum við á leið yfir í færeysku leiðina, sem verður notast við í öllum jarðgöngum framvegis. Það hefur alltaf staðið til að hliðra fjármagninu á þennan hátt,“ segir Sigurður Ingi.

Í samtali við Austurfrétt sagði Sigurður Ingi að til standi að bjóða verkið út á næsta ári og hefja framkvæmdir árið 2023. Til þessa hefur verið miðað við upphaf framkvæmda árið 2022. Nánar spurður út í þetta svaraði Sigurður Ingi að alltaf væri spurning um hvenær framkvæmdir væru hafnar, hvort það miðist við undirbúning eða fyrstu skóflustungu.

Af fenginni reynslu og þekkingu fari nú lengri tími í undirbúning vegaframkvæmda en hann leiði til þess að framkvæmdin sjálf gangi betur. Verklokin séu því sömu og það gildi um Fjarðarheiðargöngin. Miðað við þau orð ættu göngin að verða tilbúin á seinni hluta ársins 2029.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.