Ekkert íbúðarhúsnæði til sölu á Egilsstöðum og Fellabæ

"Í sögulegu samhengi er það stórmerkilegt að ekkert íbúðarhúsnæði er til sölu í augnablikinu á Egilsstöðum og Fellabæ.,“ segir Sigurður Magnússon fasteignasali hjá fasteignasölunni Inni. „Raunar tel ég það einsdæmi á landsvísu að engin íbúð er til sölu í jafnstóru bæjarfélagi og um ræðir.“

Sigurður segir að síðasta íbúðin sem var til sölu á Egilsstöðum hafi selst á Þorláksmessu og síðan hafi engar nýjar íbúðir komið á markaðinn.

„Með hækkandi sól býst ég við og vona að framboð aukist en það blasir við að þörfin fyrir nýbyggingar er orðin mikil ,“ segir hann.

Fram kemur í máli Sigurðar að þessi skortur á íbúðum til sölu skýrist af tvennu. Mikilli eftirspurn eftir íbúðahúsnæði á svæðinu og því að lítið hefur verið byggt af nýju húsnæði á undanförnum árum. Það séu dæmi um að eignir seljist samdægurs eða nokkrum klukkutímum eftir að þær eru settar í sölu.

„Það hafa verið byggð tvö raðhús með samtals átta íbúðum á síðustu tveimur árum og þær seldust allar áður en byggingu þeirra lauk,“ segir Sigurður. „Nú er fyrirhugað að byggja samskonar raðhús enda hafa þau reynst ákaflega vel.,,

Hvað varðar skort á nýframkvæmdum segir Sigurður að þar sé ekki við sveitarfélagið að sakast því nægt framboð er af lóðum af þess hálfu.

„Byggingarkostnaður hefur fram til þessa verið heldur hár miðað við mögulegt söluverð á íbúðarhúsnæði og því hefur verið lítill hvati til að byggja,“ segir Sigurður. „Fasteignaverð á svæðinu hefur hinsvegar hækkað umtalsvert á síðustu árum og nú er svo komið að byggingarverktakar eru alvarlega að hugsa sér til hreyfings og kæmi mér ekki á óvart ef nýbyggingum fjölgaði á Egilsstöðum og Fellabæ á þessu ári.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.