Ekkert bólusett eystra í þessari umferð

Ekkert af því bóluefni Moderna, sem kom til landsins í morgun, verður dreift á landsbyggðinni. Búist er við að meira af bóluefninu muni berast til lands reglulega á næstu vikum.

Í samtali við Austurfrétt staðfesti Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurland, að ekki sé búist við neinu austur úr þessari sendingu af bóluefni Moderna.

Um er að ræða 1200 skammta. 700 þeirra fara til Landsspítalans sem bólusetur framlínustarfsfólk en 500 til heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem bólusetu sjúkraflutningafólk, lögregluþjóna og starfsfólk farsóttarhúss.

Búist er við að meiri regla fari nú að komast á afhendingar bóluefnis og er reiknað með um 1200 skömmtum frá Moderna til landsins aðra hverja viku.

Um 170 Austfirðingar, heilbrigðisstarfsfólk og íbúar á hjúkrunarheimilum, voru milli jóla og nýárs bólusettir með bóluefni Pfizer/BioNTech. Endurtaka þarf þá bólusetningu til að tryggja fulla virkni innan 40 daga og reiknað með að seinni umferðin eystra verði í næstu viku. Guðjón segir að fyrri umferðin hafi gengið afar vel.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.