Ekkert að því að dorga af bryggjum í Norðfirði

Lögreglan á Austurlandi hefur beðist afsökunar á hafa haft afskipti af fjölskyldu sem var að renna fyrir fisk innst í Norðfirði í gær og bannað henni að dorga. Móðir sem var þar með syni sínum segist fyrst hafa haldið að um grín væri að ræða.


„Ég, sonur minn og vinur hans vorum að dorga með litlu bensínstöðvaveiðistöngunum eins og við höfum gert í áratug.

Ég var úti við kant að hjálpa þeim við að losa þorskinn, því þeir sleppa honum alltaf eftir að hafa veit þegar löggubíll keyrir upp að okkur og tilkynnir okkur að veiðar séu þarna bannaðar. Ég hélt fyrst að þetta væri grín en það var það ekki.“

Þannig lýsir Hrönn Hjálmarsdóttir atburðarásinni í gær en mæðginin voru á veiðum á svokallaðri Bræðslubryggju, innst í Norðfirði á afhafnasvæði Síldarvinnslunnar.

Takmarkanir á friðunarsvæði

Hrönn sagði frá málinu í gær á Facebook og fékk mikil viðbrögð. Lögreglan á Austurlandi svaraði á sinni síðu í gærkvöldi með að deila upplýsingum frá Veiðifélagið Norðfjarðarár um takmarkanir um veiðar á vatnasvæði árinnar. Er þar meðal annars talað um 1,5 km friðunarsvæði frá ósum árinnar þar sem óheimilt sé að stunda stangveiðar.

Athugasemdir bæði þar og við færslu Hrannar hafa síður en svo verið vingjarnlegar í garð lögreglunnar og verið farið fram á skýringar á framferði lögreglunnar.

Lögreglan hefur nú beðist velvirðingar á afskiptum sínum og í samtali við Austurfrétt sagði Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn, þau hafa verið „mistök.“

Í yfirlýsingu sem lögreglan sendi frá sér segir að vandlega athuguðu máli hafi fengist sú niðurstaða að stangveiði væri leyfileg á bryggjum Norðfjarðar innan friðunarsvæðisins. Því verði ekki höfð frekar afskipti af dorgurum á svæðinu.

Landeigandi getur bannað veiðar

Samkvæmt lögum eru takmarkanir á veiðum á lax- og silungi, sem gengur upp í ár, í sjó líkt og á Norðfirði. Almennt er ekki bannað að stund stangveiði við ósa veiðiár en eigandi sjávarjarðar, í þessu tilfelli Fjarðabyggð, skal hafa samráð við veiðifélag viðkomandi ár þar um. Ekki komi til afskipta lögreglu nema fyrir liggi skýr yfirlýsing landeiganda um bann sem byggi á þessu samráði.

Fiskistofa getur hins vegar bannað veiðar á ákveðnum svæðum á ákveðnum tímum sé það talið nauðsynlegt til að tryggja fisktengd í nærliggjandi veiðivötn.

Í yfirlýsingu lögreglunnar er beðist velvirðingar á þeim óþægindum sem afskiptin kunna að hafa haft og vonast eftir áframhaldandi góðum samskiptum við Norðfirðinga.

Í samtali við Austurfrétt sagðist Hrönn aðallega líta á atvikið í gær sem fyndið og voru mæðgin mætt aftur til bryggjuveiða þegar Austurfrétt hafði tal af henni eftir hádegið. „Það er lítill fiskur hér en fullt af grút.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar