Tækifæri í áframvinnslu uppsjávarafla á Austfjörðum

Austurland hefur setið eftir í þróun nýrra sjávarútvegsafurða meðan annars staðar hefur byggst upp blómlegur iðnaður og verðmæti. Tækifærin eru fyrir hendi á svæðinu fyrir fólk með góðar hugmyndir.


Þetta er mat Ingva Þórs Georgssonar, viðskiptafræðings hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) en hann var meðal frummælenda á ráðstefnu Ungs Austurlands sem haldin var nýverið á Borgarfirði.

„Við erum í neðstu tveimur þrepum virðispíramídans. Hvar fer áframvinnslan fram?“ spurði Ingvi.

Hann benti á að mikil þróun hefði orðið í sjávarútvegi undanfarinn aldarfjórðung. Frá 1991 hefðu fyrirtæki safnað saman veiðiheimildum og náð fram hagkvæmni, endurnýjað fiskiskipaflota og tækjabúnað.

Barist um allt hráefni

Íslendingar sé ein mesta fiskveiðiþjóð heims og fylgi vísindalegri ráðgjöf, sem vissulega hafi tekið tíma fyrir útgerðarmenn að sætta sig við.

Í dag veiða Íslendingar helmingi minna en þeir gerðu árið 1981 en skapa helmingi meiri verðmæti úr afurðunum. Lykilatriði er að nýta allan fiskinn og stundum er talað um Grindavíkurþorskinn þar sem hver arða er nýtt. Það er viðeigandi þar sem talað er um lýsi sem fyrstu aukaafurðina.

„Hugtakið aukaafurð er ekki lengur til. Þetta eru allt afurðir sem barist er um. Þegar hausamarkaðurinn hrundi í Nígeríu var hráefnið selt til Danmerkur í loðdýrafóður í staðinn.“

Tækifæri í fullvinnslu

Samþjöppuninni hefur fylgt sérhæfing. Ferskur fiskur, sem er sá verðmætasti, er mest unninn á Suðurlandi þar sem hægt er að koma honum í borð í fraktflug til að hann komist sem fyrst á markað. Fleiri markaðir hafi opnast með fleiri flugum til Íslands með auknum ferðamannastraumi.

Austfirðingar hafa sérhæft sig í uppsjávarfiski en 50% veiðiheimilda hans eru í fjórðungnum en vinnslan er ekki þróuð. „Við erum hráefnisframleiðendur og bræðum í litlu mæli. Það eru mikil tækifæri í að fullvinna þessar afurðir.“

Ingvi tók dæmi víða um land svo sem lituðum sushi-hrognum frá Akranesi, Westmans-merkinu í Vestmannaeyjum og 60 nýsköpunarfyrirtæki sem tengist Sjávarklasanum í Reykjavík. En þegar horft er á landakortið kemur í ljós eyða. „Það er ekkert að gerast á Austurlandi.“

Uppsjávarklasi á Austfjörðum?

Á Austurlandi var fiskþurrkun Haustaks í Fellabæ lengi dæmi um vinnslu aukafurða. Hún lokaði hins vegar fyrir skemmstu og þar gæti hafa glatast færi. „Hvað erum við að gera við allar aukaafurðirnar af Austfjörðum ef Haustak þurrkar ekki lengur? Það hefði til dæmis verið hægt að þurrka loðnusnakk.“

Hann hvatti austfirsk sjávarútvegsfyrirtæki til samvinnu í nýsköpun. „Það hefði átt að stofna uppsjávarklasa hér fyrir fimm til sex árum. Það er tími til kominn að menn setjist niður við eitt borð og geri þetta almennilega.“

Hann taldi líka næg tækifæri fyrir hugmyndaríka frumkvöðla. „Framþróunin byggir á þekkingu. Það er spurning um að reyna að sjá tækifærin og finna sér leið inn. Síðan eru menn bara einu símtali frá forstjóranum.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar