Orkumálinn 2024

Eitt ónýtt fellihýsi en annað farið vel á Borgarfirði eystra

„Það fauk eitt fellihýsi hér í bænum og það er gjörónýtt en að öðru leyti hefur allt gengið vel hérna hjá okkur,“ segir Sylvía Ösp Jónsdóttir, hjá björgunarsveitinni Sveinungum á Borgarfirði eystra.

Hætta var talin á því í gærkvöldi að há sjávarstaða gæti ollið því að sjór færi á land og jafnvel að smábátar gætu verið í hættu. Gengu því björgunarsveitarmenn sérstaklega vel frá bátum við bryggju og fylgdust með vel en ekkert bjátaði svo á og ekki gekk sjór á land heldur að sögn Sylvíu. Einhverjir munir hafi fokið í bænum en ekkert stórvægilegt og engar tilkynningar um meiðsli á fólki. Hún segir enn töluvert hvasst í firðinum og vaktinni því ekki lokið í bili.

Áfram útköll á Seyðisfirði og í Neskaupstað

„Það er búið að vera yfir 30 metrar á sekúndu hér meira og minna í allan dag og enn að berast tilkynningar til okkar,“ segir Sveinn Halldór Oddsson Zoëga, formaður aðgerðastjórnar björgunarsveitanna á Austurlandi.

Hann segir útköll enn að berast sveitum í Neskaupstað og á Seyðisfirði nú eftir hádegi í dag en þar um að foktilkynningar að ræða.

Aðspurður um hvort fregnast hafi að slysum á fólki segir Sveinn svo ekki vera að frátöldum þeim erlendu ferðamönnum sem urðu fastir á Möðrudal og fengu sand og grjót yfir bíla sína. Þar var þó mestmegnis um lítilsháttar skrámur að ræða. Aðrar tilkynningar um meiðsl hafa ekki borist frá neinum stað.

Að sögn Sveins Halldórs hefur vindhraði í Neskaupstað síst verið minni í dag en í gær og enn blæs þar duglega. Mynd Hlynur Sveinsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.