Einstaklega góð jólaverslun á Egilsstöðum

Jólaverslunin í síðasta mánuði var einstaklega góð á Egilsstöðum og mun betri en í fyrra. Greinilegt er að íbúar bæjarins hafa tekið vel í áskoranir um að versla í heimabyggð.

„Þegar við tókum púlsinn á jólaversluninni í miðjum desember kom í ljós að hún var mun meiri og betri en í fyrra. Við héldum þá að fólk væri bara fyrr á ferðinni en áður. Hinsvegar hefur þessi góða verslun haldið áfram alveg til jóla,“ segir Heiður Vigfúsdóttir eigandi Austurfarar sem vinnur ýmis verkefni fyrir Þjónustusamfélagið á Héraði.

„Við höfum hvatt fólk til að versla í heimabyggð og styrkja þannig nærsamfélag sitt. Það hefur greinilega skilað árangri,“ segir Heiður.

COVID hefur vissulega haft áhrif í þá átt að fólk hefur síður ferðast út fyrir fjórðunginn í leit að jólavarningi en Heiður bendir á að vefverslun sé á sama tíma alltaf að verða æ stærri hluti af jólaversluninni og auðvelt sé fyrir fólk að nálgast vörur hvaðan að án þess að fara út af heimilinu.  

"Það sem ég tel að spili sterkt inn í myndina er gott vöruúrval og þjónusta á svæðinu samhliða því að heimamenn eru að verða enn meðvitaðri um mikilvægi verslunar í heimabyggð.“ segir Heiður.

Fram kemur í máli Heiðar að verslunareigendur á Egilsstöðum séu almennt mjög ánægðir með jólaverslunina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.