Eins og í Betlehem: Öll gistiheimili full í rigningunni í gær

Austfirsk gistiheimili neyddust til að vísa gestum frá í gærkvöldi sem leituðu skjóls undan miklum rigningum á landinu síðustu daga. Rekandi gistihúss segir ferðamennina almennt hafa verið vel búna en haft þörf fyrir að komast í skjól.

„Þetta var svolítið eins og í Betlehem þegar María og Jósef komu þangað, ég veit ekki hvort einhverjir hafi endað á að gista í fjárhúsum,“ segir Arna Björg Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Óbyggðaseturs Íslands að Egilsstöðum í Fljótsdal.

Fullt var í gistingu á Óbyggðasetrinu í nótt sem og mörgum öðrum gistiheimilum á svæðinu þegar yfir svæðið gekk mikil rigning og rok. Mest varð úrkoman í Neskaupstað og Seyðisfirði í gær, yfir 70 mm. Slík lægð hefur gengið yfir landið síðustu daga og telur Arna að margir gestir hafi verið komnir með nóg af veðrinu.

„Þetta var fólk sem var að koma inn á svæðið. Flestir voru ágætlega útbúnir en þurftu að fá að þurrka fötin sín og tjöldin í stað þess að slá þeim aftur upp blautum. Þetta hefði mögulega getað sloppið ef tjöldin hefðu verið þurr.

Við fengum mjög þakkláta gesti. Fólk var mjög fegið að geta sest niður í hlýjuna til að þurrka sig og fengið heitan mat.“

Margir leituðu skjóls seinni partinn í gær og þurfti að vísa gestum frá á Óbyggðasetrinu. Á staðinn mætti stór hópur og bókaði þau gistipláss sem laus voru en áður en náðist að loka fyrir bókanir á netinu höfðu aðrir bókað þar.

„Við gátum ekki tekið á móti öllum en hringdum á gististaðina í kringum okkur til að hjálpa þeim. Þar var líka allt fullt og við vitum að þau gistiheimili voru líka að reyna að aðstoða gesti í sömu stöðu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.