Einn sýslumaður á Austurlandi?

logreglumerki.jpg
Sýslumannsumdæmin á Austurlandi verði sameinuð í eitt gangi hugmyndir innanríkisráðherra, sem birtast í frumvarpi il laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í hérað, eftir. Nýju landsbyggðar umdæmin eiga að verða öflugri þjónustustofnanir en þau sem fyrir eru sem auki möguleikann á flutningi verkefna til þeirra.

Á Austurlandi í dag eru tvö sýslumannsumdæmi, á Seyðisfirði og Eskifirði. Að auki situr sýslumaður á Höfn í Hornafirði. Umdæmamörkin eru ekki tilgreind í frumvarpinu en þau á að ákveða í sérstakri reglugerð. Gert er ráð fyrir að í henni verði einnig kveðið á um hvar aðalskrifstofa sýslumanns verði og aðrar þjónustustöðvar verða, að höfðu samráði við sýslumann. 

Ráðherra hefur einnig lagt fram frumvarp um breytingu á skipan lögreglumála utan höfuðborgarsvæðisins og Reykjaness. Í því frumvarpi er lagt til að löggæsla verði skilin frá starfsemi sýslumanna og stofnuð sex ný sjálfstæð lögregluembætti, sem verða því átta alls en þau eru fimmtán í dag.

Lögreglustjórar eru í dag á Egilsstöðum, undir Seyðisfjarðarumdæminu og á Eskifirði. Skammt er síðan stjórn lögreglunnar á Höfn þar var færð til Eskifjarðar. Í væntanlegum lögreglulögum er gert ráð fyrir einu Austurlandsumdæmi og verði umdæmamörk og staðsetning lykilstarfsmanna ákveðin líkt og hjá sýslumönnunum.

Svæðaskipting eftir sóknaráætlun

Með frumvarpinu á að fækka sýslumannsembættunum úr 24 í átta. Þau skiptast eftir gömlu kjördæmunum eins og þau voru til ársins 2003. Óvíst er samt hvort Höfn fylgir Austur- eða Suðurlandsumdæmi.

„Með þessari svæðaskiptingu er horft til þeirra svæða sem stefnumótunarskjalið Ísland 20/20 skilgreinir og sóknaráætlanir landshluta byggjast á. Með sameiningu sýslumannsembættanna verða til öflugri þjónustustofnanir sem standa betur að vígi til þess að sinna hlutverki sínu og taka að sér aukin verkefni,“ segir í athugasemdum með frumvarpinu.

Mörg embætti of veikburða í dag

Ýmsar forsendur eru taldar upp fyrir sameiningunni: byggðaþróun og bættar samgöngur, sameining sveitarfélaga og stofnana, aukin samskiptatækni og rafræn þjónusta, krafa um hagræðingu í ríkisrekstri og að með fækkun og stækkun embættanna verði hin nýju embætti öflugri.

„Telja má að minnstu embættin sem hafa fáum starfsmönnum á að skipa séu of veikburða til þess að halda uppi nægjanlega öflugri þjónustu í samanburði við stærri embætti. Við minnstu embættin eru nú tæplega nægileg verkefni fyrir löglærðan starfsmann. Þess er vænst að stækkun og sameining embætta leiði til þess að þau verði öflugri þjónustueiningar. Almennt má gera ráð fyrir að sérhæfing og afköst starfsmanna aukist við stærri embætti og að stærri og færri embætti muni tryggja betur samræmt verklag.“

Enn fremur segir að með breytingunni og rafrænni stjórnsýslu opnist tækifæri til að flytja verkefni út á landsbyggðina. „Með samningi milli sýslumannsembættis og viðkomandi stofnunar væri á einfaldan hátt hægt að flytja störf án þess að kosta of miklu til. Víða hjá sýslumannsembættum er vannýtt húsnæði. Starfsemi sem flutt yrði til sýslumannsembættis nyti ýmiss konar þjónustu sem fyrir er hjá viðkomandi embætti.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.