Egilsstaðir komnir á Facebook

Þeir sem búa, eða eru aldir upp á Egilsstöðum, geta nú loksins kennt sig við staðinn á Facebook. Markaðssérfræðingur segir mikilvægt fyrir sveitarfélög og aðra viðburðahaldara að geta tengt sig við ákveðna staði til að vekja athygli á vöru sinni.

Þeir sem búa á Egilsstöðum þekkja að erfitt hefur verið að gefa upp búsetu sína á Facebook. Þeir hafa því þurft að fara krókaleiðir og velja Eiða, Hallormsstað, Valþjófsstað eða jafnvel Egilstad í Noregi.

Svona hefur staðan verið í nokkur ár, þrátt fyrir stöku harmahljóð Egilsstaðabúa. Þetta breyttist hins vegar í júlí.

„Ég var að funda með fyrirtæki frá Egilsstöðum í markaðsmálum og fékk þar að heyra að Egilsstaðir væru ekki enn til á Facebook. Ég hafði því samband við Íslending sem vinnur hjá Facebook og bar þetta undir hann.

Honum þótt þetta mjög sérstakt og nokkrum dögum síðar var búið að kippa þessu í liðinn,“ segir Davíð Lúther Sigurðarson, eigandi auglýsingastofunnar Sahara en hann er alinn upp á Egilsstöðum.

Hann segir þetta skipta máli fyrir fyrirtæki og aðra sem standi fyrir viðburðum í bænum því notendur Facebook leiti gjarnan á miðlinum að viðburðum út frá staðsetningu.

En fleira hefur gert Héraðið sýnilegra á samfélagsmiðlum en áður. Að undirlagi Sahara, sem sérhæfir sig í stafrænni markaðssetningu, er búið að koma á Snapchat og Instagram táknum fyrir svæðið sem þeir sem eru á ferðinni geta notað með þegar þeir deila þaðan myndum.

Til dæmis er hægt að velja um hreindýrshorn, Lagarfljótsorminn, merki íþróttafélagsins Hattar og póstnúmerið 700. Davíð segir slíkar tengingar við staði skipta miklu máli í markaðsstarfi.

„Fólk tengir sig við staði á samfélagsmiðlum. Þeir sem eru á ferðinni taka myndir af einhverju áhugaverðu og deila með fylgjendum sínum. Í gegnum táknin sjá þeir hvar viðkomandi er staddur. Sá sem tekur mynd af fljótinu getur sett orminn inn á hana en ormurinn er sterkt vörumerki.“

Hluti af þjónustu Sahara er að hafa milligöngu um táknmyndagerðina. „Það er hægt að hafa samband við okkur, við erum með grafíska hönnuða sem geta gert táknin og svo fólk sem hefur samband við samfélagsmiðlana til að fá þau samþykkt. Það tekur yfirleitt nokkra daga,“ segir Davíð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.