Egilsstaðaflugvöllur meðal verst tengdu flugvalla heims

Flugvöllurinn á Egilsstöðum er meðal þeirra flugvalla sem hafa minnsta möguleika á alþjóðlegum tengingum. Aðgangur að flugtengingum er forsenda fyrir dreifingu ferðamanna.

Þetta er meðal þess sem lesa má út úr niðurstöðum rannsóknar sem gerð var á vegum hóps við háskólann í Lissabon sem um árabil hefur þróað aðferðir og birt vísindagreinar um tengimöguleika flugvalla og dreifingu ferðamanna. Niðurstaða hópsins hefur síðan verið könnuð frekar með OpenFlights, gagnagrunni um áætlunarflug.

Samkvæmt úttekt breska blaðsins Telegraph er flugvöllurinn á Egilsstöðum, ásamt öðrum völlum í íslenska áætlunarflugkerfinu, meðal þeirra flugvalla sem eru verst tengdir við alþjóðlega flugvallanetið.

Egilsstaðir – Buenos Aires

Frá Egilsstöðum er aðeins hægt að fljúga til Reykjavíkur. Þaðan þarf annað hvort að fara til Keflavíkur til að komast í millilandaflug eða fara til Grænlands.

Blaðið tekur dæmi um Austfirðing sem ætlar til Buenos Aires í Argentínu, eingöngu með flugi. Frá Reykjavík fer hann áfram til grænlensku flugvallanna Godthaab og Kangerlussuaq áður en flogið er til Kaupmannahafnar, Heathrow við Lundúni og þaðan til Buenos Aires.

Best og verst tengdu vellirnir

Verst tengdi flugvöllur heims samkvæmt úttektinni er Peanwanuck í Kanada. Til að komast frá honum til vallarins sem er fjærstur honum, Thargomindah í Queensland í Ástralíu, þarf að taka tólf flug sem alls taka 28 tíma, án biðtíma.

Best tengdi flugvöllur heims er Heathrow sem býður upp á beint flug til 204 áfangastaða í 85 löndum. Vellirnir í Chicago, Frankfurt, Amsterdam og Toronto koma næstir. Að meðaltali er hver af 3.237 flugvöllum heimsins tengdur 19,21 öðrum og að meðaltali þarf að taka 4,05 flug til að komast frá einum áfangastað til annars.

Hvernig dreifist auðlegð í gegnum ferðamennsku?

Á sama tíma og þessar upplýsingar kunna að hljóma sem kaffispjall flugnörda sem fáir aðrir hafa áhuga hafa þær dýpri þýðingu því ferðamönnum fylgja mikil efnahagsleg gæði.

Rannsóknarhópurinn hefur þróað aðferðir sínar til að reyna að skilja hvernig ferðamenn dreifast um heiminn í veröld þar sem flestir reynda að komast á sem stystum tíma frá A til B og flugfélög hafa tilhneigingu til að beina farþegum sínum í gegnum sem fæsta tengipunkta.

Rannsóknir hópsins hafa leitt í ljós að straumur ferðamanna er yfirleitt meiri í eina áttina en aðra, af þeim sem fara frá A til B fara aðeins 44% frá B til A. Straumurinn liggur alla jafna frá ríkari löndum til þeirra fátækari. Þá ferðast rúm 60% flugfarþega aðeins innan sinnar eigin heimsálfu. Reyndar er það svo að framboð farþegaflugs annar ekki eftirspurn þar sem áætlunarflugið byggir mjög á fraktflutningum.

Hópurinn bendir á að veruleg efnahagsleg áhrif séu falin í fluginu. Þeir sem ferðist frá sínu heimalandi styrkja verulega efnahag svæðisins og landsins sem þeir heimsækja. Yfirleitt kýs fólk að heimsækja þá staði sem eru best tengdir, annað hvort nálægt heimili þess eða vel tengdir í gegnum flug. Það gerir fjarlægðir afstæðar. Samkvæmt rannsókninni er ekki mikill munur á því hvort fólk heimsækir staði sem eru innan við 1000 km eða meira en 2000 km frá heimili þess.

Rannsakendur benda á að mest sé um ferðamennsku í ríkjum sem hafa sterka landfræðilega stöðu í alþjóðastjórnmálum. Þeir telja mikilvægt að kanna frekar hvernig auðlegð dreifist í gegnum ferðamennsku og hanna sem best flugkerfi til að anna eftirspurn á háannatímum ferðamennskunnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar