Egilsstaðaflugvöllur klár fyrir flug Condor

Öll aðstaða á Egilsstaðaflugvelli er fyrir hendi þegar áætlunarflug Condor frá Frankfurt hefst um miðjan maí. Tækifæri voru nýtt í tengslum við millilandaflug í haust til að kanna enn betur hvernig flugstöðin færi með fjölda farþega.

„Völlurinn er í standi, tilbúinn og klár. Egilsstaðaflugvöllur er fullbúinn millilandaflugvöllur og það eina sem breytist er að millilandaflugið verður reglulegt. Annars hefur þetta verið gert hér svo árum skiptir,“ segir Ásgeir Rúnar Harðarson, umdæmisstjóri Isavia á Austurlandi.

Tækifærin voru nýtt þegar millilandaflug voru um völlinn í haust til að reyna aðstæður enn betur. „Við nýttum síðustu flug til að sjá hvernig flugstöðin höndlaði þennan fjölda og það kom vel út. Hún ræður vel við að það séu tvær vélar á vellinum í einu, önnur að koma og hin að fara.“

Flug Condor á reyndar ekki að rekast á við innanlandsflugið þar sem vélarnar frá Þýskalandi lenda ekki eystra fyrr en rúmlega tíu á þriðjudagskvöldum meðan kvöldvélin til Reykjavíkur á að fara í loftið 20:30.

„Við hefjum innritun 21:30 og lokum svæði í flugstöðinni af hálftíma fyrr. Innritunin á að vera langt komin þegar vélin lendir. Ef innanlandsfluginu seinkar þannig vélarnar verði á sama tíma á vellinum, sem hefur alveg gerst, þá höfum við áætlanir til að bregðast við.“

Isavia eins og önnur fyrirtæki eru nú að leita sér að sumarstarfsfólki. Ekki á samt að þurfa að bæta sérstaklega við hópinn á Egilsstöðum út af flugi Condor. „Við erum að skoða þessi mál. Mögulega fjölgum við en við höfum mikið af góðu og vel þjálfuðu starfsfólki, bæði í fastri vinnu og tímavinnu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.