Orkumálinn 2024

Engan hundakúk takk!

„Þegar þau fóru að moka og leika sér ráku þau sig fljótt í hundakúk sem var ansi víða í sandinum og ég mokaði skít í þrjá poka af svæðinu,“ segir Unnur Óskarsdóttir, umsjónarkennari í Seyðisfjarðaskóla, en nemendur hennar gengu á fund bæjarstjóra í vikunni til þess að vekja máls á sóðaskap vegna hundaskíts á leikvellinum við Sundhöllina.


„Fundurinn kom þannig til að nemendur í 1. og 2. bekk voru hér á skólalóðinni að leika sér eins og þau svo sem gera alla daga eftir skóla í skólaseli (dagvistun frá 13:10 -15:00). Ég var með þau þennan dag og þau fóru út með körfu af „búdóti“ með sér á róló,“ segir Unnur, en sem fyrr sagði var mikið af hundaskít á svæðinu.

„Þeim fannst þetta strax mjög ömurlegt og lyktin líka skelfileg. Einn drengurinn á hund og þau vita öll að þetta er staður sem ekki er í lagi að skilja eftir hundaskít. Í skólanum daginn eftir hófst umræða um þetta og nemendurnir spurðu hvað væri hægt að gera í þessu máli. Ég spurði á móti hvað þau vildu gera og upp komu hugmyndir eins og að gera frétt, teikna mynd og segja frá þessu. Skólastofan breyttist í fréttastofu sem svo gerði meira en frétt - en nemendur sömdu söngtexta, gerðu auglýsingu, en umfram allt vildu þau skrifa bæjarstjóranum bréf um þetta,“ segir Unnur, en úr varð hópurinn fór á fund bæjarstjóra.

Erindinu var vel tekið
Unnur segir að bæjarstjórinn, Vilhjálmur Jónsson, hafi tekið erindin vel. „Hann lét gera frétt um málið sem birt var á síðu Seyðisfjarðarkaupstaðar. Einnig fengu krakkanir leyfi til að setja upp skilti sem þau höfðu útbúið á leikvöllinn.“

Unnur segist meðvitað og markvisst spyrja nemendur sína hvernig þau vilji leysa þau mál sem upp koma hverju sinni og hvað sé hægt að gera. „Ég tel að raddir þeirra skipti svo sannarlega máli og ef við fullorðna fólkið gefum okkur tíma til að hlusta að þá hafa börn mjög margt til málanna að leggja.“

Hundaskítur á Seyðisfirði2

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.