„Ég held að bragurinn yfir veiðunum sé góður í dag”

Aðeins helmingur þeirra sem sækjast eftir hreindýraveiðileyfi fá úthlutað, en ásóknin er mun meiri í tarfana en kýrnar. Þetta sagði Jóhann Guttormur Gunnarsson, starfsmaður Umhverfisstofnunar á Egilsstöðum í þættinum Að Austan á N4 í liðinni viku.Vetrarstofn hreindýra á Austurlandi er um 6000 dýr og gefin verða út um 1500 leyfi til hreindýraveiða. Jóhann Guttormur segir kvótann vera í hámarki enda sé stofninn í vissu hámarki líka miðað við undanfarin ár, en þó verði vel fylgst með honum. Hann segir að fleiri umsóknir berist en hægt sé að verða við.

„Í fyrra voru umsóknir tvöfaldar í heildina. Töluverður munur var á umsóknum í kýr og tarfa, en það voru allt uppí fimmfaldar umsóknir í tarfaleyfi á ákveðnum svæðum en tæplega tvöfalt á flestum svæðum í kýrnar. Þannig að líkurnar á því að fá leyfi á kú eru mun meiri en á tarf,” segir Jóhann Guttormur.

Vonar að veiðimenn gefi sér góðan tíma til að njóta
Jóhann Guttormur segir að fagmennska sé að aukast í greininni. „Ég vona að menn gefi sér betri tíma til veiðanna en áður og læri að njóta þeirra. Skemmtilegast er að komast á fjöll í góðu veðri og félagsskapurinn skemmir ekki fyrir, en leiðsögumenn búa yfir hafsjó af fróðleik sem gaman er að hlusta á. Ef maður þarf ekki að vera með neitt stress eða flýta sér til byggða þá er þetta mjög skemmtilegt. Ég held að bragurinn yfir veiðunum sé góður í dag og vonandi verður hann það áfram.”

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar