Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga skrifaði öllum austfirsku sveitarfélögunum

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, hefur skrifað öllum sveitarfélögunum fjórum á Austurlandi, með athugasemdir um fjárhag þeirra. Um er að ræða brýningar til sveitarstjórna við gerð fjárhagsáætlana ársins 2024.

Eftirlitsnefndin yfirfer ársreikninga sveitarfélaganna og hefur heimild til aðgerða ef stefnir í að sveitarfélög uppfylli ekki kröfur laga um fjárhag.

Samkvæmt lögum skulu heildarskuldbindingar ekki vera meira en 150% af reglulegum tekjum. Öll austfirsku sveitarfélögin uppfylla þá kröfu.

Hvað skoðar eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga?


Þá mega samanlögð heildarútgjöld til rekstrar ekki fara yfir samanlagðar reglulegar tekjur yfir þriggja ára tímabil. Eftirlitsnefndin skoðar rekstrarniðurstöðu, veltufé frá rekstri og framlegð sem hlutfall af reglulegum tekjum.

Gefinn var lausari taumur á reglunum í Covid-faraldrinum þegar sveitarfélög voru hvött til að auka útgjöld sín til að halda upp atvinnu- og þjónustustigi. Afleiðinga þessa gætir enn, samkvæmt síðustu ársskýrslu samtakanna hefur verið halli á rekstri sveitasjóða árin 2020-22. Athugasemdirnar frá eftirlitsnefndinni nú miða við ársreikninga ársins 2022.

Eftirlitsnefndin greinir annars vegar A og B-hluta saman og síðan A-hlutann sérstaklega. Athugasemdir austfirsku sveitarfélaganna snúa allar að A-hlutanum. Í A-hluta er um að ræða lögboðin eða almenn verkefni sveitarfélaga fjármögnuð með skatttekjum. Í B-hluta er sérverkefni fjármögnuð með sértekjum, svo sem hafnarsjóðir og veitur.

Sveitarfélögin hafa frest fram til ársins 2025 til að uppfylla lögin. Tilgangur bréfsins er að brýna sveitarstjórnir við gerð fjárhagsáætlana en eftirlitsnefndin veitir aðstoð ef þess er óskað.

Hver er staðan hjá austfirsku sveitarfélögunum?


Fljótsdalshreppur er skuldlaus. Rekstrarniðurstaða A-hluta er -7% sem gerð er athugasemd við. Framlegð er 4% og veltufé frá rekstri 7%. Er það vel yfir lágmörkunum sem eru 0% í tilfelli Fljótsdalshrepps.

Skuldahlutfall Múlaþings er 112% sem er í lagi. Rekstrarniðurstaðan er -8%. Framlegðin er jákvæð um 5% en hefði þurft að ná 11%. Veltuféð er jákvætt um 4% en ætti að vera 6%. Fyrir þessi þrjú atriði fær sveitarfélagið athugasemdir.

Hjá Vopnafjarðarhreppi er skuldahlutfallið 125%. Rekstrarniðurstaðan er -11%, framlegðin -5% en ætti að vera 12% og veltuféð -3% en þyrfti að vera 6%. Hreppur fær því ábendingar vegna þessara þriggja þátta.

Skuldahlutfall Fjarðabyggðar er 133%. Veltufé frá rekstri er 7% eins og lágmarkið. Rekstrarniðurstaðan er -5%. Framlegðin er 5% en krafan er 13%. Athugasemdir eftirlitsnefndarinnar snúa að síðasttöldu atriðunum tveimur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.