Skip to main content
Utan við göngin eru skilti sem minna á myndavélarnar. Mynd: GG

Eftirlit með meðalhraða í Fáskrúðsfjarðargöngum hefst á morgun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. okt 2025 15:46Uppfært 13. okt 2025 15:48

Myndavélar sem mæla meðalhraða ökutækja í gegnum Fáskrúðsfjarðargöng verða formlega teknar í notkun á morgun. Fyrstu slíkar myndavélarnar voru ræstar í Norðfjarðargöngum haustið 2021. Meðalhraðaeftirlit þykir gefa góða raun við að draga úr hraða og þar með umferðarslysum.

Í byrjun sumars voru tvær nýjar myndavélar settar upp í göngunum, við sitt hvorn enda ganganna. Þær mynda öll ökutæki og reikna út hversu fljót þau eru í gegn. Búnaðurinn hefur verið í prófun að undanförnu en þeim er lokið og allt tilbúið.

„Þessar myndavélar eru settar upp fyrst og fremst í forvarnaskyni,“ segir Auður Þóra Árnadóttir, forstöðumaður umferðardeildar Vegagerðarinnar. „Við viljum draga úr hraða og þar með slysum, einkum alvarlegum, því við vitum að það eru tengsl milli hraða og alvarleika slysa. Jarðgöng eru alls ekki helstu slysastaðirnir en við vitum að slys í göngum geta orðið alvarleg,“ bætir hún við.

Frá opnun Fáskrúðsfjarðarganga árið 2005. Mynd: GG

Meðalhraðaeftirlit gefið góða raun

Fyrstu meðalhraðamyndavélarnar voru teknar í gagnið í Norðfjarðargöngum haustið 2021. Meðalhraðamyndavélar voru síðar settar upp í Dýrafjarðargöngum árið 2023 og Hvalfjarðargöngum árið 2024. Frá 2021-2023 var einnig meðalhraðaeftirlit á Grindavíkurvegi.

Öll gögn um hraða fara til lögreglunnar og því hefur Vegagerðin ekki nákvæma tölfræði um aksturshraða en miðað við grófar upplýsingar frá lögreglunni virðast meðalhraðavélarnar draga verulega úr hraðakstri. 

Það stemmir við erlendar rannsóknir um að meðalhraðaeftirlit hafi mun meiri áhrif en punkteftirlit, það er vélar sem á ákveðnum stöðum mynda þá sem fara of hratt akkúrat þar. Slíkar vélar voru áður í Fáskrúðsfjarðargöngum. „Það þurfti að endurnýja þann búnað og talið var hentugra að endurnýja með þessari tegund,“ segir Auður Þóra, en gömlu vélarnar hafa verið teknar niður.

Auður Þóra segir meðalhraðaeftirlitið að mörgu leyti sanngjarnara heldur en punktaeftirlitið. Það þyki einnig henta vel í jarðgöngum. Til skoðunar er að fjölga slíkum myndavélum á opnum vegum.

Ekki til að hanka fólk

Vegagerðin rekur aðeins búnaðinn, heldur honum við og tryggir að hann virki rétt. Öll gögn eru dulkóðuð og myndir af bílum á löglegum hraða eyðast sjálfkrafa. Myndir af þeim sem keyra of hratt eru sendar lögreglunni til frekari úrvinnslu. 

Áður en komið er inn í göngin eru skilti þar sem athygli er vakin á eftirlitinu. „Við erum ekki að reyna að hanka neinn, aðeins að auka öryggi,“ segir Auður Þóra að lokum.

Meðalhraðaeftirlit hefur verið í Norðfjarðargöngum í tæp fjögur ár. Mynd: Jens Einarsson