Dúxaði í ME samhliða því að vera á kafi í pólitíkinni

Einar Freyr Guðmundsson útskrifaðist með hæstu meðaleinkunn stúdenta við Menntaskólann á Egilsstöðum á þessari vorönn, 9,79. Einar segir þrotlausa vinnu liggja að baki einkunninni. Samhliða náminu tók Einar Freyr virkan þátt í félagslífi innan og utan veggja skólans.

„Samviskusemin hefur komið mér hvað lengst. Þetta er þrotlaus vinna, ég hef eytt ótal tímum á kvöldin í aukavinnu.

Ég hef alltaf verið mjög samviskusamur. Mér finnst vanta eitthvað upp á ef ég er bara með níu, þá finnst mér ég aðeins hafa lært 90% af því sem ég að læra þótt það sé ekki þannig.

Ég hef alltaf fengið mikla hvatningu heima fyrir. Mamma hefur verið dugleg að brýna fyrir mér að sinna náminu vel,“ segir Einar Freyr.

Á föstudags útskrifuðust 37 nemendur úr ME, 11 af félagsgreinabraut, 13 af opinn braut, 12 af náttúrufræðibraut og einn með viðbótarnám til stúdentspróf. Við útskriftina voru veittar viðurkenningar fyrir námsárangur, félagsstörf, seiglu og framfarir í námi.

Einar Freyr útskrifaðist með 211 einingar af náttúrufræðibraut á þremur árum. Aðspurður um áfangana sem dregið hafi hann niður nefnir hann tvo stærðfræðiáfanga, þrjá íslenskuáfanga og loks nokkra íþróttaáfanga.

Honum var jafnframt hrósað fyrir góða ástundum auk þess að hafa verið virkur í félaglífi skólans. Hann var í ræðuliði skólans síðustu tvö ár auk þess að vera í vetur formaður málfundafélagsins og þar með fulltrúi í nemendaráði, þaðan sem hann tengdist aftur inn í ýmsa viðburði.

Tvennar kosningar á lokaárinu

Hann hefur líka verið í félagsstörfum utan skólans, í ungmennaráði Fljótsdalshéraðs og síðar Múlaþings frá 2017, þar af formaður síðustu ár. Samhliða lokasprettinum í ME hellti hann sér út í stjórnmálin.

„Ég náði tvennum kosningum á lokaárinu. Ég var í tíunda sætinu hjá Sjálfstæðisflokknum í Norðausturkjördæmi fyrir kosningarnar í haust, þar fékk ég smá nasaþef af baráttunni. Í mars fór ég í prófkjör og náði fimmta sætinu, sem ég var mjög ánægður með. Við fengum síðan glæsilega kosningu núna, 29% og þrjá fulltrúa sem þýðir að ég er annar varamaður.

Að samtvinna kosningabaráttuna og skólann gekk mun betur en ég þorði að vona. Ég var búinn með það mikið af náminu að ég átti bara einn áfanga og lokaverkefni eftir, um þriðjungsnám þannig ég hafði tíma í félagsstörf og kosningabaráttuna.“

Eitt af því sem flokkurinn gerði í kosningabaráttunni var að framleiða boli með mynd af Einari undir slagorðinu „Einar Frey í sveitarstjórn.“ Fjörtíu stykki voru gerð og fengu færri en vildu.

En fyrst hann verður ekki aðalmaður að sinni er stefnan sett á frekara nám í haust. „Ég sótti um í lögfræði í HR en held öðrum möguleikum opnum ef það gengur ekki eftir. Síðan er stefnan sett á þing í framtíðinni!“

Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.