Orkumálinn 2024

Dýrasta leikskólavistin á Fljótsdalshéraði

skogarland_leikskoli_egs.jpg
Leikskólagjöld eru hæst á landsvísu á Fljótsdalshéraði þegar borið er saman gjald fyrir níu tíma vistun ásamt fæði meðal fimmtán stærstu sveitarfélaga landsins. Fjarðabyggð er eitt af þremur sveitarfélögum í hópnum sem ekki hækkuðu gjaldskrá sína á milli ára. 

Þetta kemur fram í nýlegri úttekt verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands.
 
Á Fljótsdalshéraði kostar níu tíma vistun með fæði 43.560 á mánuði sem er um tíu þúsund krónum hærra en í Skagafirði þar sem hún er ódýrust. Í Fjarðabyggð kostar hún 38.897 krónur.

Átta tíma vistun með fæði er dýrust í Garðabæ en næst dýrust á Fljótsdalshéraði, 34.560 og þriðja dýrust í Fjarðabyggð 33.730.

Dýrir tímar en ódýrt fæði

Hátt tímagjald er sameiginlegt með báðum sveitarfélögunum, 3.325 krónur á Fljótsdalshéraði en 3.167 í Fjarðabyggð. Lægsta tímagjaldið er í Reykjavík, 2.260 krónur.

Á móti kemur að fæðisgjaldið er fremur lágt. Hádegismaturinn kostar tæpar 4.200 krónur hjá hvoru sveitarfélagi samanborið við 6.840 krónur í Garðabæ sem er hæstur.

Tímagjaldið á Fljótsdalshéraði hækkaði um 5% um síðustu áramót en fæðisgjaldið stóð í stað. Engar hækkanir voru í Fjarðabyggð.

Forgangshópar líka dýrastir

Fljótsdalshérað er einnig dýrast þegar borin eru saman verð forgangshópa. Níu tíma vistun, með fæði, í forgangshóp kostar þar 34.688 krónur og 26.346 í Fjarðabyggð. Ódýrust er hún í Reykjavík, 20.495 krónur á mánuði. Aðeins í Reykjanesbæ kostar forgangsvistun yfir þrjátíu þúsund krónur.

Dæmið snýst við þegar horft er til átta tíma vistunar með fæði í forgangshópi. Hún er þar dýrust í Fjarðabyggð, 26.129 kr. á mánuði en næst dýrust á Fljótsdalshéraði, 25.688. Ódýrust er hún í Reykjavík, rúmar 15.300 krónur.

Í athugasemdum með úttektinni segir að leikskólinn í Brúarási sé ekki tekinn með í tölum Fljótsdalshéraðs. Mikill munur á milli átta og níu tíma vistunar skýrist af því að tímagjald umfram átta klukkustundir er 9.000 krónur í sveitarfélaginu.

Sveitarfélögin fimmtán sem borin voru saman í könnunni eru: Reykjavík, Akureyri, Garðabæ, Hafnarfjörður, Kópavogur, Ísafjarðarbær, Akranes, Mosfellsbær, Árborg, Skagafjörður, Seltjarnarnes, Vestmannaeyjar, Reykjanesbær Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað. Auk Fjarðabyggðar var gjaldskráin óbreytt á Seltjarnarnesi en í Ísafjarðarbæ lækkaði hún.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.