Dæmdur fyrir heimabrugg, vörslu stera og marijúana: Sýknaður af sölu fíkniefna

heradsdomur_austurlands_log_1532625740.gif Karlmaður á fertugsaldri var í gær dæmdur í héraðsdómi Austurlands fyrir vörslu fíkniefna, stera og vera með 25 lítra af heimabrugguðum bjór og sérhæfð bruggtæki. Dómnum þótti ekki sannað að maðurinn hefði selt fíkniefni. Ekkert mark var tekið á hlerunum á síma mannsins og ákæruvaldið var átalið fyrir að sanna ekki að rætt hefði verið um fíkniefnaviðskipti.

 

Við leit á heimi mannsins um miðjan desember í fyrra fannst 71 gramm af marijúana, 60 millilítrar af vefaukandi (anabólískum) sterum, rúmir 25 lítrar af bjór og bruggtæki. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa selt fíkniefni. Fíkniefnahundur „merkti“ hjónaherbergi, þvottahús, bílskúr og bíl mannsins.

Lögreglan fékk heimild dómara til að hlera síma mannsins þremur dögum fyrir handtökuna. Sama dag var fylgibúnaði komið fyrir í bíl hans. Lögregluembættunum á Seyðisfirði og Eskifirði höfðu áður borist „um nokkurt skeið“ upplýsingar um að maðurinn seldi fíkniefni. Þegar hann var stöðvaður var þunguð eignkona hans og ung dóttir með í för.

„Þá hefur hann verið tekinn“

Meðal sönnunargagna sem ákæruvaldið lagði fram var fjöldi símtala sem hljóðrituð voru þessa þrjá daga. Aldrei var í þeim talað beinum orðum um fíkniefni. Lögreglumenn, sem kallaðir voru til sem vitni, sögðu að þekkt væri að talað væri um fíkniefni undir rós. Símtölin væru við þekkta fíkniefnaneytendur. Því til stuðnings var vitnað til þess að maðurinn hefði aldrei talað um sölu sína á fæðubótarefnum undir rós.

Fyrir dómi sagðist ákærði hvorki nokkurn tíman hafa neytt sé selt fíkniefni. Símtölin hefðu snúist um fæðubótarefnin eða kurteisisheimsóknir. Meðal annars voru lögð fram ummæli um að ákærði hygðist „kafa aftur í innflutninginn eins og ég var sko“. Hann sagðist hafa flutt inn matvæli og húsgögn og ætlaði nú að fara að flytja inn dekk. Öðru sinni hafði karlmaður lesið inn á talhólf hans: „Hann er ekki að svara, þá hefur hann verið tekinn.“

Ákæruvaldið átalið fyrir að nota ekki önnur vitni en lögreglumenn

Að mati dómarans sýndu þessi símtöl ekki fram á sekt mannsins. Ákæruvaldið hefði ekkert gert til að reyna að hnekkja skýringum hans um fæðubótarefni, til dæmis með að leiða fram viðmælendurna sem vitni.

„Af hálfu ákæruvalds var þess í stað leitast við að leiða í ljós álit lögreglumanna á því hvort símtöl þessi snérust um fíkniefnaviðskipti. Slíkur framburður getur ekki haft sönnunargildi í málinu og ber að átelja þann málatilbúnað ákæruvaldsins,“ segir í dómnum.

Einnig var lögð fram upplýsingaskýrsla úr öðru máli þar sem gælunafn mannsins var nefnt og að hann stæði í „umfangsmiklum fíkniefnaviðskiptum á Austurlandi“. Maðurinn sagði að þarna væri ekki átt við hann. Sú skýrsla fékk sömu meðferð hjá dómaranum.

„Fyrir dóminn voru hvorki lagðar hljóðritanir né nákvæm endurrit af þessum símtölum. Þá voru ekki lögð fram gögn því til stuðnings að hlustanir lögreglu í þessum tilvikum hafi farið fram með heimild samkvæmt dómsúrskurði. Þeir sem nafngreindir eru í upplýsingaskýrslu þessari voru hvorki leiddir fyrir dóm sem vitni né yfirheyrðir hjá lögreglu vegna málsins. Að mati dómsins er fráleitt að ætla að þessi upplýsingaskýrsla hafi nokkurt sönnunargildi í máli þessu og verður fram hjá henni litið við úrlausn málsins.“

Fleiri atriði urðu til þess að maðurinn var sýknaður af ákærunni um fíkniefnasöluna. Fæðubótarefni voru vissulega í dunkum í bílskúr hans. Ekki voru færðar sönnur á að vog eða plastpokar þar hefðu notuð við slík viðskipti. Mismunandi pokar höfðu þannig ekki verið bornir saman við rannsóknina. Magnið þótti heldur ekki nægjanlegt til að ljóst væri að það hefði verið ætlað til sölu.

Óvinsæll í bæjarfélaginu

Ákærði bar því reyndar við að efnunum hefði verið komið við heima hjá honum, meðal annars hefði lögreglan getað gert það. Hann væri ekki vinsæll meðal bæjarbúa eftir líkamsárás um sumarið. Dómarinn taldi ekki hald í þeirri vörn að efnunum hefði verið komið fyrir án hans vitundar.

Hvað sterana varðar þá þótti sannað að þeir væru ekki seldir hérlendis nema gegn ávísun læknis. Innihaldið í stunguglösunum hafði samt ekki verið ítarlega efnagreint. Sannað þótti að manninum hefði mátt vera ljóst að þeir væru smyglaðir.

Maðurinn játaði á sig áfengislagabrot. Öll efnin og bruggtækin voru gerð upptæk. Helmingur sakarskotanaðar, sem alls var hálf milljón, fellur á ríkið þar sem maðurinn var sýknaður af þeim ákærum sem dýrast var að verjast.

Þar sem brotin voru framin áður en dómur vegna líkamsárásarinnar féll taldist sakaferill mannsins hreinn. Hann fékk þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir árásina, en sá dómur féll í febrúar. Einn mánuður bætist við þá refsingu með dómnum nú.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.