Djúpivogur fyrst sveitarfélaga með Verndarsvæði í byggð

Mennta- og menningarmálaráðherra staðfesti í gær tillöguna um verndarsvæði í byggð á Djúpavogi, hinu fyrsta á Íslandi. Tillagan ber heitið „Verndarsvæðið við voginn.“

Alþingi samþykkti lög um verndarsvæði í byggð fyrir rúmum tveimur árum en markmið þeirra er að stuðla að vernd og verðveislu byggðar sem hefur sögulegt gildi.

Í sumar samþykkti sveitarstjórn Djúpavogshrepps að leggja fram tillögu um verndarsvæði sem byggðist á lögunum.

„Svæðið sem um ræðir er 60-150 m breið skák meðfram strönd sjálfs Djúpavogs að austanverðu, inn fyrir botn vogsins og út fyrir gömlu verslunarhúsin að vestanverðu (Löngubúð og Faktorshús), og þaðan upp með götunni Búlandi að austanverðu og suður á hæðina Aurinn eða Kirkjuaurinn, þar sem gamla Djúpavogskirkja stendur,“ segir í lýsingu með tillögunni.

„Tillagan fjallar um verndargildi byggðarinnar á umræddu svæði, sem þrátt fyrir rösklega 400 ára búsetu og athafnalíf, skartar að talsverðu leyti nánast ósnortinni fjöru, minjum sem gefa góða mynd af sögu og þróun byggðar við voginn allt frá lokum 16. aldar og byggingum sem eru meðal þeirra elstu á landinu.

Við þetta tvinnast síðari tíma framkvæmdir, svo sem hafnargerð, veglagningar og önnur mannvirkjagerð. Saman eru staðhættir, umhverfi, húsin, mannvirkin og leifar þeirra áhugavert dæmi um aldalanga byggðaþróun. Með tillögu um verndarsvæðið við voginn verður verndargildi svæðisins fest í sessi.“

Tillagan er staðfest að fenginni umsögn Minjastofnunar Íslands sem meðal annars horfir til afmörkunar verndarsvæðis, og gagna sem liggja til grundvallar greinargerð sem fylgir tillögunni, þ.m.t. fornleifaskráningar, húsakönnunar, mats á varðveislugildi og skilmála um verndun og uppbyggingu innan marka verndarsvæðisins.

Í umsögn Minjastofnunar segir að tillagan sé „að öllu leyti vel unnin og geri skilmerkilega grein fyrri öllum þeim þáttum sem áskildir eru.

Afmörkun svæðisins er vel rökstudd og tekur mið af staðháttum og sögulegum sérkennum byggðarinnar. Skilmálar um vernd og uppbyggingu innan verndarsvæðisins eru greinargóðir og til þess fallnar að markmið tillögunar um verndun og svipmót hinnar sögulegu byggðar nái fram að ganga.“

Djúpivogur er fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að hljóta þessa viðurkenningu en vinna stendur yfir hjá 22 öðrum.

Kristján Þór Júlíusson undirritaði tillöguna við Djúpavogshöfn í gær að Með undirritun ráðherra sem fór fram í blíðskaparveðri við Djúpavogshöfn að viðstöddum sveitarstjóra Gauta Jóhannessyni ásamt fulltrúum úr sveitarstjórn.

Að verkefninu vann TGJ skipulagsskrifstofa Djúpavogshrepps með doktor Pál Jakob Líndal umhverfissálfræðing í fararbroddi auk þess sem að Gunnlaugur Haraldsson þjóðháttafræðingur sá um mikilvægan þátt verkefnisins, þá vann Andrés Skúlason oddviti Djúpavogshrepps einnig ötullega að verkefninu, að því er fram kemur í tilkynningu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.