Djúpavogshreppur: Sameiningarviðræður komnar í frost

Sameiningarviðræðum Djúpavogshrepps, Skaftárhrepps og sveitarfélagsins Hornafjarðar hefur verið frestað að sinni. Oddviti Djúpavogshrepps segir ríkisstjórnarslit, hugmyndir um lágmarksstærð sveitarfélaga og breytingu á stefnu Jöfnunarsjóðs hafa hægt á viðræðum í haust.

„Þær eru komnar í frost. Það stefnir ekki í að verði kosið um sameininguna heldur verði það nýrrar sveitastjórnar að taka þessi mál upp ef áhugi er fyrir hendi,“ segir Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps í nýjasta tölublaði Ausutrgluggans.

Viðræður sveitarfélaganna þriggja hófust haustið 2016 og um tíma var stefnt á að kjósa um sameininguna í haust þannig hún tæki gildi með sveitastjórnarkosningum næsta vor. Nú er ljóst að svo verður ekki og segir Andrés að menn hafi einfaldlega brunnið inni á tíma.

Margt hafi orðið til þess, til dæmis ríkisstjórnarslit og þingkosningar. „Næsta skref var að fara að ræða áherslumál við viðkomandi ráðuneyti. Það var ekki hægt að halda áfram þegar enginn ráðherra var við borðið með umboð til að taka ákvarðanir.“

Jöfnunarsjóður gæti þvingað minni sveitarfélög til sameiningar

Tillögur starfshóps á vegum ráðherra sveitastjórnarmála um lágmarksstærð sveitarfélaga hafi einnig haft sín áhrif. Þær hafi verið ræddar manna á milli á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í haust sem hafi orðið til þess að ýmsar sameiningar séu til skoðunar.

Þá bendir Andrés á að Jöfnunarsjóður sveitarfélaganna hafi breytt stefnu sinni á þann hátt að teknir verði fjármunir út úr sjóðnum til að styrkja við sameiningar. „Sú aðgerð gæti orðið til að þvinga minni sveitarfélög til sameiningar. Þeir peningar sem fara út úr sjóðnum minnka heildarpottinn og það er enginn háðari sjóðnum en minnstu sveitarfélögin.“

Eitt af skilyrðum viðræðna sveitarfélaganna þriggja var að styrkur fengist úr Jöfnunarsjóðnum til sameiningar. „Það var komin tala í loftið en hún var ekki til annars en standa í viðræðunum. Hún dugði ekki í einstök verkefni til að efla nýja heild eða keyra stjórnkerfin saman,“ segir Andrés.

Þá hafi verið mismunandi skoðanir í stýrihópi sveitarfélaganna. Andrés kveðst ekki vilja fara nánar út í hvað hafi þar borið á milli. „Mitt persónulega mat hefur hins vegar verið að betra sé fyrir Djúpavogshrepp að sameinast frekar í austur og vera áfram inni á vettvangi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.“

Hægt að ræða sameiningar í vor

Enn stendur til að funda með íbúum í hverju sveitarfélagi og kynna stöðu viðræðnanna. Hins vegar sé ekkert kjöt á beinunum til að fara í ítarlegri kynningar.

Andrés segir að þar sem íbúar séu byrjaðir að ræða saman í hverju sveitarfélagi um listakosningar í vor hafi fyrirvarinn verið orðinn of stuttur. „Það er þá hægt að gera það að kosningamáli hvort og hvert íbúar vilja sameinast.“

Nú á Djúpavogshreppur fulltrúa í starfshópi sem kallaður var saman að frumkvæði Fljótsdalshéraðs um nánari sameiningu sex austfirskra sveitarfélaga. Í þeim hópi hefur því verið velt upp hvort rétt sé að kanna hug íbúa til sameiningar samhliða kosningunum í vor. „Það er gott að fá niðurstöður um hvert íbúar vilja sameinast en það þarf að vanda spurningarnar. Þetta er þó erfitt því afstaðan hlýtur að velta á þeim pappírum sem fyrir liggja.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.