Djúpavogsbúar ekki mótfallnir veggjaldi á Öxi

Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps, segir íbúa sveitarfélagsins ekki vera mótfallna hugmyndum um að vegagerð yfir Öxi verði að hluta fjármögnuð með veggjöldum.

„Við finnum fyrir jákvæðni. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem ég hef talað við setur sig ekki upp á hóflegu veggjaldi ef það verður til að flýta framkvæmdinni. Þetta er mikil stytting og hagsmunamál,“ segir Gauti.

Samgönguráðherra hyggst í haust leggja fram frumvarp á Alþingi sem gerir það kleift að Vegagerðin geti tekið lán gegn væntum tekjum af veggjöldum til að fjármagna samgönguframkvæmdir, á móti ríkinu. Axarvegur hefur verið nefndur til sögunnar sem ein af fyrstu framkvæmdunum með slíkri fjármögnun.

Hugmyndin var kynnt fyrir austfirskum sveitarstjórnarmönnum um miðjan mánuðinn um leið og skýrsla starfshóps um jarðgöng til Seyðisfjarðar. „Þetta var góður fundur þar sem ráðherra upplýsti um jarðgangaáætlun, veg yfir Öxi og fleira. Þessar framkvæmdir yrðu kærkomin innspýting fyrir Austurland,“ segir Gauti.

Sama dag var einnig opnaður nýr vegur yfir Berufjörð. Með honum er bundið slitlag á öllum Hringveginum.

„Það er skemmtilegt að haldið sé upp á Hringveginum sé lokað hér. Við fögnum því að því sé lokið. Það er kærkomið fyrir Djúpavogsbúa en þetta er fyrst og fremst hagsmunamál fyrir allan fjórðunginn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.